Kænugarður Vítalí Klitsjkó borgarstjóri Kænugarðs virðir hér fyrir sér húsarústir eftir árásina í gærmorgun.
Kænugarður Vítalí Klitsjkó borgarstjóri Kænugarðs virðir hér fyrir sér húsarústir eftir árásina í gærmorgun. — AFP/Sergei Supinsky
Níu særðust í Kænugarði í gærmorgun þegar Rússar gerðu eldflaugaárás á borgina. Serhí Popkó, yfirmaður herstjórnar Kænugarðshéraðs, sagði að Rússar hefðu skotið tveimur eldflaugum á borgina frá Krímskaga, en að loftvarnarkerfi Kænugarðs hefðu náð að skjóta báðar niður

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Níu særðust í Kænugarði í gærmorgun þegar Rússar gerðu eldflaugaárás á borgina. Serhí Popkó, yfirmaður herstjórnar Kænugarðshéraðs, sagði að Rússar hefðu skotið tveimur eldflaugum á borgina frá Krímskaga, en að loftvarnarkerfi Kænugarðs hefðu náð að skjóta báðar niður. Brak úr flaugunum hefði hins lent á miðborg Kænugarðs með tilheyrandi skaða.

Þetta er þriðja loftárásin sem Rússar gera á borgina á síðustu fimm dögum, en talið er að árásirnar séu í hefndarskyni fyrir drónaárásir Úkraínumanna á olíuiðnað Rússa, sem og árásir þeirra og rússneskra uppreisnarhópa á landamærahéruð Rússa í Belgorod og Kúrsk.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði að árásin í gær sýndi enn og aftur að Úkraínumenn þyrftu að fá fleiri og betri loftvarnarkerfi frá bandamönnum sínum. „Það þýðir öryggi fyrir borgir okkar og bjargar mannslífum. Við öll sem virðum og verjum mannslíf þurfum að binda enda á þessi hryðjuverk,“ sagði Selenskí á samfélagsmiðlum sínum.

Bridget Brink, sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, sagði á samfélagsmiðlum að Rússar hefðu skotið ofurhljóðfráum eldflaugum á borgina, og sagði hún árásina sýna mikilvægi þess að fulltrúadeild Bandaríkjaþings afgreiddi frumvarp um hernaðaraðstoð við Úkraínu.

Úkraínumenn réðust í fyrrinótt á Novotsjérkassk-raforkuverið í Rostov-héraði. Vasilí Golúbev, héraðsstjóri í Rostov, sagði að eldur hefði kviknað í verinu eftir drónaárás Úkraínumanna og að slökkt hefði verið á tveimur af framleiðslueiningum versins.

Svartahafsflotinn „óvirkur“

Úkraínumenn gerðu einnig eldflaugaárás á Krímskaga á sunnudaginn, og beindist hún einkum að bækistöðvum Svartahafsflotans. Skutu þeir langdrægum Storm Shadow-flaugum á Sevastopol og náðu að hitta eina af samskiptastöðvum flotans og nokkrar aðrar byggingar á vegum hans. Þá náðu þeir einnig að hitta tvö herflutningaskip, Jamal og Azov, og sögðust Úkraínumenn hafa náð að eyðileggja skipin.

Grant Shapps varnarmálaráðherra Bretlands sagði í gær að Svartahafsfloti Rússa væri nú í raun „óvirkur“ vegna árása Úkraínumanna. „Rússar hafa siglt um Svartahafið frá 1783, en neyðist nú til að halda skipum sínum í höfn. Og jafnvel þar sökkva skip Pútíns,“ sagði Shapps. Svartahafsflotinn hefur misst um fjórðung skipa sinna frá því að innrás Rússa hófst fyrir tveimur árum.

Ríki íslams beri ábyrgðina

Emmanuel Macron Frakklandsforseti lýsti því yfir í gær að Ríki íslams hefði staðið á bak við hryðjuverkaárásina í Moskvu á föstudagskvöldið þar sem 137 féllu. Varaði hann Rússa sérstaklega við því að reyna að varpa ábyrgðinni á árásinni yfir á Úkraínu.

Macron sagði að frönsk stjórnvöld hefðu áreiðanlegar upplýsingar um að eitt útibú samtakanna hefði skipulagt og framkvæmt árásina á Crocus-tónleikahöllina í Moskvu, og að sami hópur hefði gert nokkrar tilraunir til að fremja hryðjuverk á franskri grundu.

Macron sagði einnig að það myndi vera fólskulegt og ekki þjóna tilgangi sínum fyrir Rússa að reyna að nota árásirnar til þess að réttlæta herferð sína gegn Úkraínumönnum. Sagði hann að frönsk stjórnvöld hefðu boðið Rússum aukna samvinnu til að koma í veg fyrir frekari hryðjuverk.

Samtökin IS-K, sem eru afsprengi Ríkis íslams, hafa lýst árásinni á hendur sér, og meðal annars birt myndir af árásarmönnunum og myndbandsupptökur af árásinni sem voru teknar upp á búkmyndavélar hryðjuverkamannanna. Hópurinn bar einnig ábyrgð á árásinni á flugvöllinn í Kabúl í ágúst 2021, þar sem 13 bandarískir hermenn og 170 óbreyttir afganskir borgarar féllu.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, neitaði hins vegar í gær að tjá sig um yfirlýsingar IS-K, og sagði að rannsókn málsins væri enn í gangi. Pútín reyndi að bendla Úkraínumenn við árásina á tónleikahöllina þegar hann ávarpaði Rússa á laugardag og sagði að hryðjuverkamennirnir hefðu verið á leiðinni til Úkraínu eftir að hafa framið ódæðið.

Árásarmennirnir fjórir voru handteknir aðfaranótt laugardags og dregnir fyrir dómara í fyrradag. Eru þeir allir frá Tadsíkistan, og báru þess merki að hafa verið pyndaðir. Þurfti að flytja einn þeirra inn í dómsalinn á börum. Lýstu tveir þeirra yfir sekt sinni.