Fróður Jónas Hallgrímsson var fjölhæfur.
Fróður Jónas Hallgrímsson var fjölhæfur.
„Ljósvaki var hugsaður sem bylgjuberi ljóss. Allt frá því að afstæðiskenning Einsteins öðlaðist almenna viðurkenningu í upphafi aldarinnar hefur eðlisfræðingum verið ljóst að ljósvakinn er ekki til.“ Svo segir á Vísindavefnum í svari við …

Helgi Snær Sigurðsson

„Ljósvaki var hugsaður sem bylgjuberi ljóss. Allt frá því að afstæðiskenning Einsteins öðlaðist almenna viðurkenningu í upphafi aldarinnar hefur eðlisfræðingum verið ljóst að ljósvakinn er ekki til.“

Svo segir á Vísindavefnum í svari við spurningunni „Hvað er ljósvaki? Er hann til?“ Nú hef ég skrifað fjölda Ljósvaka í Morgunblaðið og því ákveðið áfall að komast að þessu. Í nokkuð flókinni skýringu Vísindavefjar segir m.a. að orðið ljósvaki sé frá Jónasi Hallgrímssyni komið. „Þeir sem aðhylltust bylgjueðli ljóss snemma á 19. öld settu því fram þá hugmynd að allt rúm væri fyllt af bylgjubera ljóss sem Jónas Hallgrímsson kallaði ljósvaka í þýðingu sinni á Stjörnufræði Ursins,“ segir þar og í lok svars segir að tími hafi verið kominn til að kasta ljósvakanum fyrir róða og það hafi Albert Einstein gert fyrstur manna þegar hann setti fram „takmarkaða afstæðiskenningu sína árið 1905“. „Samkvæmt henni er ljósið bylgja sem ferðast með sama hraða, ljóshraðanum, í hvaða viðmiðunarkerfi svo sem litið er á það. Þessi bylgja þarf engan bylgjubera til að berast í, ljósvakahugmyndin er gagnslaus og röng, ljós og aðrar rafsegulbylgjur berast viðstöðulaust um tómarúm og ljósvakinn er ekki til,“ segir þar. Einstein var snillingur en orðið hans Jónasar er bara svo fallegt að Ljósvaki verður áfram Ljósvaki, alla vega hér í Morgunblaðinu.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson