Skalli Stærstu leikmenn íslenska liðsins verða að vinna skallaboltana sína gegn Úkraínu ef liðið ætlar sér áfram í lokakeppnina, segir Kári Árnason.
Skalli Stærstu leikmenn íslenska liðsins verða að vinna skallaboltana sína gegn Úkraínu ef liðið ætlar sér áfram í lokakeppnina, segir Kári Árnason. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þessi leikur leggst ágætlega í mig og þú færð ekki betra dauðafæri en þetta til þess að tryggja þér sæti í lokakeppni Evrópumótsins,“ sagði Kári Árnason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið

EM-umspil

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Þessi leikur leggst ágætlega í mig og þú færð ekki betra dauðafæri en þetta til þess að tryggja þér sæti í lokakeppni Evrópumótsins,“ sagði Kári Árnason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

Ísland mætir Úkraínu í úrslitum umspils um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2024 í Wroclaw í Póllandi í kvöld en lokakeppnin fer fram í Þýskalandi í sumar.

Kári, sem er 41 árs gamall, lék alls 90 A-landsleiki fyrir Ísland á árunum 2005 til ársins 2021 en hann starfar í dag sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Íslands- og bikarmeisturum Víkings úr Reykjavík. Hann var í lykilhlutverki á tveimur stórmótum með landsliðinu, EM 2016 í Frakklandi og HM 2018 í Rússlandi.

Óverðskuldað dauðafæri

„Ég verð bara að vera hreinskilinn með það að þetta er mjög óverðskuldað dauðafæri sem við erum komnir í. Við höfum í raun ekkert getað í undankeppni Evrópumótsins og svo allt í einu erum við, kannski ekki alveg með boltann á marklínunni, en við erum allavega komnir vel áleiðis inn í vítateig andstæðingsins. Þetta er einn leikur og það getur allt gerst. Ég horfði á leik Úkraínu gegn Bosníu og Úkraínumennirnir voru mjög stressaðir, það sást langar leiðir.

Þó að Bosníumenn séu með góða einstaklinga innan sinna raða eru þeir alls ekki gott fótboltalið. Fyrir mér voru þeir næstslakasta liðið í riðlinum í undankeppninni. Þrátt fyrir það settu þeir mikla pressu á úkraínska liðið á stórum köflum leiksins en Úkraínu tókst að lauma inn tveimur mörkum á lokamínútunum.

Þessi leikur gegn Úkraínu verður allt annar leikur en gegn Ísrael og við mætum miklu sterkari andstæðingi. Ef við ætlum okkur áfram verðum við að gjöra svo vel og spila almennilegan varnarleik,“ sagði Kári.

Þrátt fyrir að Ísland hafi unnið stórsigur gegn Ísrael, 4:1, í Búdapest á fimmtudaginn í undanúrslitum umspilsins þarf íslenska liðið að spila mun betur í leiknum í kvöld.

Verða að vinna fyrstu boltana

„Mér fannst varnarlínan okkar detta of langt niður á móti Ísrael og menn héldu línunum illa. Það er algjört lykilatriði að liðið haldi línunum betur. Við vorum komnir í það að verjast stundum með sex leikmenn í öftustu víglínu gegn Ísrael og það kann aldrei góðri lukku að stýra. Þegar þú ert ekki vanur að liggja til baka kann mönnum að líða betur þannig en þessu er öfugt farið og þú vilt alls ekki vera með of marga leikmenn í öftustu línunni.

Við getum ekki farið inn í leikinn gegn Úkraínu með sama leikplan og við gerðum gegn Ísrael. Við verðum að geta beitt löngum boltum fram völlinn og við þurfum framherja sem getur unnið skallabolta, haldið boltanum og komið honum í leik. Orri Steinn Óskarsson og Willum Þór Willumsson unnu ekki þessa skallabolta gegn Ísrael en þessum leikmönnum ber skylda, sem stærstu leikmönnum liðsins, til að láta finna vel fyrir sér og vinna þessa fyrstu bolta.“

Þurfum skyndisóknir

Kári telur að lykillinn að sigri sé að liggja til baka og beita skyndisóknum gegn úkraínska liðinu.

„Það munar ofboðslega miklu fyrir okkur sem lið að geta byrjað einhverjar sóknir inni á vallarhelmingi andstæðinganna. Þá erum við ekki jafn fastir í því að þurfa að spila boltanum beint út úr vörninni til þess að skapa okkur álitlegar sóknir. Það er auðvitað gott og blessað að spila út úr vörninni ef þú ert með liðið í það en við þurfum að vera með fleiri valmöguleika en það.

Eins og ég sagði áðan þarf varnarleikurinn að vera upp á tíu ef við ætlum okkur sigur. Við þurfum að liggja til baka og freista þess svo að beita skyndisóknum. Við þurfum að finna Albert Guðmundsson og Hákon Arnar Haraldsson á réttu svæðunum á réttu tímapunktunum. Fyrst og fremst þurfa samt allir leikmenn liðsins að skila varnarvinnu sinni upp á tíu.“

Landsliðsmaðurinn fyrrverandi er bjartsýnn fyrir hönd íslenska liðsins.

„Þetta er bara einn leikur og þetta er algjörlega 50-50-leikur að mínu mati. Við höfum sýnt það að við erum góðir gegn þessum sterkari andstæðingum, eins og til dæmis Portúgal í undankeppninni. Úkraína er mjög langt frá því að vera jafn sterkur andstæðingur og Portúgal og það gefur manni ákveðna von. Ég tel að við getum unnið þetta úkraínska lið á góðum degi,“ sagði Kári Árnason í samtali við Morgunblaðið.