Árni Reynir Óskarsson fæddist á Akureyri 21. janúar 1934. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 18. mars 2024.

Foreldrar hans voru Óskar Kristinn Júlíusson, f. 8. maí 1892, d. 14. janúar 1993, og Snjólaug Aðalsteinsdóttir, f. 30. október 1893, d. 27. mars 1980, bændur á Kóngsstöðum í Skíðadal.

Systkini: Aðalsteinn Sveinbjörn, f. 1916, Kristín, f. 1920, Valdimar, f. 1922, Friðrikka Elísabet, f. 1925, þau eru öll látin. Eftirlifandi er tvíburasystir Árna, Ástdís Lilja.

Eiginkona Árna er Ingibjörg Jónína Björnsdóttir, f. 24. mars 1939. Foreldrar hennar voru Björn Jónsson, f. 7. desember 1903, d. 8. mars 1977, og Þorbjörg Vilhjálmsdóttir, f. 17. janúar 1908, d. 27. janúar 1968, ábúendur í Ölduhrygg í Svarfaðardal.

Börn Árna og Ingibjargar eru: 1) Björn Þór skipstjóri, f. 1958, d. 1989. Dóttir hans er Sigrún Birna, maki Jóhann Eðvald Benediktsson og eiga þau þrjá syni. 2) Helga Kristín, fjármálastjóri og bókari, f. 1960, maki Guðmundur Guðlaugsson og eiga þau einn son, Björn Þór. 3) Óskar Reynir hjúkrunarfræðingur, f. 1964, sonur hans er Árni Reynir og eiga hann og kona hans, Helga Guðrún Lárusdóttir, tvö börn. 4) Víkingur Arnar, umsjónarmaður húseigna á Dalbæ, f. 1966, maki Kolbrún Gunnarsdóttir, þau eiga fjögur börn, Dagmar Fríðu, Hilmi Frey, Ingibjörgu Ósk og Birnu Rún, barnabörn þeirra eru níu talsins. 5) Þorbjörg Ásdís hjúkrunarfræðingur, f. 1971, maki Baldur Stefánsson, þau eiga fjögur börn, Stefán Þór, Karen Dögg, Arnór Inga og Elvu Ragnheiði. 6) Snjólaug Elín kennari, f. 1972, maki Ingólfur Ingvarsson og eiga þau þrjú börn, Ingvar, Þorbjörgu Júlíu og Árna Þór, og eitt barnabarn.

Árni vann ýmis störf um ævina, lengst hjá Frystihúsi KEA sem verkstjóri og frystihússtjóri. Hann var í útgerð um tíma hjá Stefáni Rögnvaldssyni ehf. og vann hjá sápugerðinni Hreini á Dalvík. Í nokkur ár var hann í fiskeftirliti hjá Sambandinu fyrir Norður- og Austurland. Árni var í Lionsklúbbi Dalvíkur, hann söng með Karlakór Dalvíkur, Karlaröddum Dalvíkur, Kirkjukór Dalvíkur og Mímiskórnum.

Árni var í sóknarnefnd Dalvíkurkirkju í mörg ár og starfaði mikið við kirkjuna. Hann var virkur félagi í félagi eldri borgara á Dalvík og var í hestamannafélaginu Hring en Árni átti alltaf hesta og kindur.

Árni ólst upp á Kóngsstöðum í Skíðadal og hafði alltaf mjög sterkar taugar í dalinn sinn. Ingibjörg og Árni byggðu hús á Smáravegi 8 á Dalvík og fluttu inn rétt fyrir jólin 1959 og bjuggu þar alla tíð.

Útförin fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 26. mars 2024, klukkan 14.

Streymi frá útförinni er á Jarðarfarir í Dalvíkurkirkju á Facebook.

Elsku afi, við erum ákaflega þakklát fyrir að þú varst afi okkar.

Okkur þótti gott að koma til ykkar ömmu í Smáraveginn, hjá ykkur leið okkur alltaf vel. Þú vildir okkur allt það besta og fylgdist alltaf vel með öllu sem við gerðum. Við munum alltaf sakna þín.

Þegar æviröðull rennur,

rökkvar fyrir sjónum þér,

hræðstu eigi, hel er fortjald.

hinum megin birta er.

Höndin, sem þig hingað leiddi,

himins til þig aftur ber.

Drottinn elskar, – Drottinn vakir

daga' og nætur yfir þér

(Sigurður Kristófer Pétursson)

Hvíl í friði elsku afi.

Þín barnabörn,

Ingvar, Þorbjörg Júlía og Árni Þór.

Elsku afi.

Takk fyrir allar yndislegu minningarnar sem leita á hugann nú þegar þú hefur kvatt. Takk fyrir að lesa fyrir mig bækurnar um Múmínálfana og leyfa mér að kúra hjá þér. Takk fyrir allar bílferðirnar um Svarfaðardalinn og dásamlegu stundirnar á Kóngsstöðum. Takk fyrir að gera heiðarlega tilraun til að kynna mig fyrir hestamennskunni, þótt illa hafi gengið að koma litlu skræfunni á hestbak. Takk fyrir skemmtilegu stundirnar sem við áttum þegar við horfðum á öll stórmótin í frjálsum íþróttum og ótal skiptin sem við spiluðum manna í Smáraveginum. Takk fyrir að segja mér að ég ætti að hætta að tipla á tánum og láta í mér heyra. En fyrst og fremst þakka ég þér fyrir yfirvegunina og rólyndið, kærleikann og umhyggjuna sem ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa ávallt fundið fyrir hjá þér.

Hvíldu í friði, elsku besti afi minn.

Þín afastelpa,

Sigrún Birna.

hinsta kveðja

Í dag kveð ég hann pabba minn með miklum söknuði. Um leið er ég þakklát fyrir það veganesti sem hann gaf mér út í lífið.

Elsku pabbi, núna sé ég þig fyrir mér röltandi um á uppáhaldsstaðnum þínum, Skíðadal.

Þegar um huga heimsbyggð kenni,

há fjöll og jöklasal.

Á engum stað ég unað kenni,

sem inni í Skíðadal.

(Brynjólfur)

Hvíl þú í friði elsku pabbi og takk fyrir allt.

Þín

Snjólaug.