Ekki að vekja gamlan draug fyrr en þarf

Þegar hvalamálið skók íslenska stjórnmálaheiminn, svo sem vonlegt var, slógu menn og konur á Alþingi því föstu að óhjákvæmilegt væri að bera fram tillögu um vantraust á ráðherrann, sem átti hlut að. Til þess voru vissulega margvísleg rök, sem andstæðingar málsins, og eftir atvikum andstæðingar ríkisstjórnarinnar, viðruðu af miklum þrótti. En svo kom babb í hvalbátinn, óskylt með öllu því efni sem tekist var á um áður. Það mál var þannig vaxið, að allir góðir menn töldu að ekki væri fært eða viðeigandi að halda kröfunum gegn ráðherranum sem í hlut átti, við þær erfiðu persónulegu ástæður sem óvænt voru komnar upp. Var ekki ágreiningur um það á þinginu, eins og mátti gefa sér.

Nú er útlit fyrir að ráðherrann, sem lék aðalhlutverkið í þessu máli, sem ýtti við tilfinningum svo margra, muni mæta til þings á ný og verða menn að trúa því að góðar batahorfur fylgi þeirri ákvörðun. En nefnt hefur verið að endurkoma ráðherrans þýði óhjákvæmilega það, að vantrauststillagan sem sett var til hliðar um hríð myndi þar með vakna á ný. Það má auðvitað færa frambærileg rök fyrir því, að það verklag sé rétt. En það má einnig halda því fram með bærilegum rökum að rík nauðsyn standi ekki endilega til þess, að blása skuli í sömu blöðruna.

Það kemur hvalveiðitíð á ný og ráðherrann, sem á í hlut, veit hvernig vindurinn stendur í þinginu og hversu viðkvæmt málið er fyrir samstöðu í þeim meirihluta, sem stjórnin styður sig við, jafnvel til lífs. Og nú er svo komið að sennilega er rétt að líta á önnur verkefni, að sjá hvað setur með hvalinn.