Alþingi Þingmenn eru í páskaleyfi. Næsti þingfundur verður 8. apríl.
Alþingi Þingmenn eru í páskaleyfi. Næsti þingfundur verður 8. apríl. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er enn í veikindaleyfi og hefur ekki tekið sæti á ný á Alþingi að sögn Iðunnar Garðarsdóttur, aðstoðarmanns Svandísar. Birt var tilkynning á vef Alþingis fyrir helgi þar sem segir að Svandís og fimm aðrir…

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er enn í veikindaleyfi og hefur ekki tekið sæti á ný á Alþingi að sögn Iðunnar Garðarsdóttur, aðstoðarmanns Svandísar. Birt var tilkynning á vef Alþingis fyrir helgi þar sem segir að Svandís og fimm aðrir alþingismenn sem þar eru taldir upp hafi tekið sæti á ný sem aðalmenn á Alþingi laugardaginn 23. mars. Varamenn þeirra hafi jafnframt vikið af þingi.

Iðunn segir þetta ekki rétt hvað Svandísi varðar. Hún sé enn í veikindaleyfi og ekki liggi alveg fyrir hvenær hún komi aftur. Segir Iðunn að skýringarnar á þessari tilkynningu séu þær að þegar Alþingi fari í páskaleyfi og þingfundir falla niður, þá gerist það sjálfvirkt hjá þinginu að allir aðalmenn séu skráðir inni og varamenn detti út. Tilkynningin stendur enn óbreytt á forsíðu á vef Alþingis.

„Samkvæmt langri venju taka aðalmenn alltaf sæti á ný um leið og hlé er gert á störfum þingsins, hvort sem það er páska-, sumar- eða jólahlé,“ segir Guðný Vala Dýradóttir, deildarstjóri á skrifstofu Alþingis. Þingið sé þá ekki að störfum, hvorki haldnir þingfundir né nefndafundir, og því sé þetta fyrirkomulag haft nema ef fyrirséð er að varamaður muni sitja áfram að afloknu þinghléi þegar um langvarandi fjarveru aðalmanns er að ræða svo sem vegna veikinda eða fæðingarorlofs. Það komi svo í ljós þegar þing kemur aftur saman hvort varamaður eða varamenn eru kallaðir aftur inn.