50 ára Jón Brynjar fæddist í Reykjavík og er elstur fjögurra systkina. Fjölskyldan bjó fyrsta kastið í Kópavogi en hefur lengst af búið í Háaleitishverfinu í Reykjavík. Jón Brynjar fór í Kópavogsskóla og síðar Álftamýrarskóla

50 ára Jón Brynjar fæddist í Reykjavík og er elstur fjögurra systkina. Fjölskyldan bjó fyrsta kastið í Kópavogi en hefur lengst af búið í Háaleitishverfinu í Reykjavík. Jón Brynjar fór í Kópavogsskóla og síðar Álftamýrarskóla. Leiðin lá í Menntaskólann við Hamrahlíð þaðan sem hann útskrifaðist 1994.

Á unglingsárunum gerðist Jón Brynjar sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum en félagið fagnar einmitt 100 ára afmæli um þessar mundir. Áhuginn lá í neyðarvörnum. 21 árs gamall tók hann þátt í viðbrögðum vegna snjóflóðsins mikla á Flateyri 1995. Neyðarviðbrögðin sem Jón Brynjar hefur komið að síðan nema hundruðum.

Hann útskrifaðist sem mjólkurfræðingur frá Óðinsvéum í Danmörku 2001 og starfaði sem slíkur hjá Emmessís hf. í nokkur ár. Hann söðlaði svo um og varð launaður starfsmaður hjá Rauða krossinum. Hann starfar nú sem sviðsstjóri aðgerðasviðs og leiðir mannúðar- og hjálparstarf félagsins heima og erlendis. Dæmi um þau verkefni sem Jón hefur sjálfur komið að í störfum sínum eru þátttaka í gerð viðbragðsáætlunar fyrir Rauða krossinn í Armeníu vegna vopnaðra átaka og neyðaraðstoð á Norður-Grænlandi sumarið 2017 í kjölfar mikillar flóðbylgju. Þá hefur hann sótt ýmsa þjálfun erlendis um neyðarviðbrögð og mannúðaraðstoð.

Jón Brynjar hefur komið að fjölbreyttum nefndastörfum. Hann sat í sóknarnefnd Grafarholtssóknar um nokkurra ára skeið. Hann situr í stjórn Samhæfingar- og stjórnstöðvar almannavarna og almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins. Hann kennir námskeið í neyðaraðstoð og endurreisn á námsbraut í áfallastjórnun við Háskólann á Bifröst og er fastur gestafyrirlesari á tveimur námskeiðum hjá Háskóla Íslands.

Fjölskylda Jón Brynjar giftist Bryndísi Rut Jónsdóttur árið 2003. Hún starfar hjá Fagkaupum. Þau eiga saman tvö börn, Árna Jökul lögreglumann og Heiðrúnu Lóu nemanda í Réttarholtsskóla og búa í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Foreldrar Jóns Brynjars eru Birgir Árnason og Laufey Jónsdóttir.