Ríkið Landlæknir neitar að bjóða út nokkuð sem tengist hugbúnaðarkerfum sem sinna öllu heilbrigðiskerfinu.
Ríkið Landlæknir neitar að bjóða út nokkuð sem tengist hugbúnaðarkerfum sem sinna öllu heilbrigðiskerfinu. — Morgunblaðið/Kristinn
Arinbjörn Rögnvaldsson arir@mbl.is Í stað þess að fara í lögmælt útboð kýs Landlæknisembættið fremur að eiga í viðskiptum fyrir háar fjárhæðir á ári við einn aðila á markaði til að annast alla þróun, uppsetningu, þjónustu og viðbætur á flestöllum heilbrigðis-hugbúnaðarkerfum landsins, þ.e. kerfum Heilsuveru, Heklu heilbrigðisnets og Sögu sjúkraskrárkerfis. Allar heilbrigðsstofnanir landsins nota kerfin og flestir landsmenn þekkja til Heilsuveru.

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Í stað þess að fara í lögmælt útboð kýs Landlæknisembættið fremur að eiga í viðskiptum fyrir háar fjárhæðir á ári við einn aðila á markaði til að annast alla þróun, uppsetningu, þjónustu og viðbætur á flestöllum heilbrigðis-hugbúnaðarkerfum landsins, þ.e. kerfum Heilsuveru, Heklu heilbrigðisnets og Sögu sjúkraskrárkerfis. Allar heilbrigðsstofnanir landsins nota kerfin og flestir landsmenn þekkja til Heilsuveru.

Lára Herborg Ólafsdóttir, eigandi og lögmaður hjá LEX lögmannsstofu, sem gætir hagsmuna nokkurra markaðsaðila, vakti athygli á reikningsviðskiptum landlæknis í aðsendri grein sem birtist í ViðskiptaMogganum á dögunum. Hún segir aðspurð í samtali við Morgunblaðið að málið sé ekki ýkja flókið. Landlæknir skirrist við að fara í útboð vegna hugbúnaðarlausna í heilbrigðiskerfinu þótt lagaskylda sé til þess.

Fer gegn útboðsframkvæmd

Hún segir að rök landlæknis séu ávallt þau sömu; framkvæmdin hafi alltaf verið svona og ekki sé tækt að fara í útboð, m.a. vegna höfundarréttar að grunnhugbúnaðinum, óháð hvers kyns þróunum, breytingum og viðbótum. „Þá hefur ítrekað verið byggt á því af hálfu landlæknis að innkaupin úr hendi Origo séu í almannaþágu. Það sé líkt og að veita grunnlæknisþjónustu eða menntun, algerlega óháð umfangsmikilli útboðsframkvæmd á heilbrigðistæknilausnum á gjörvöllu EES-svæðinu. Þessu hefur ítrekað verið hafnað í framkvæmd enda gætu opinberir aðilar að öðrum kosti sleppt því að bjóða út innkaup á sviði upplýsingatækni,“ segir Lára Herborg.

Enginn má tengjast

Að hennar sögn geta nýir aðilar á markaði ekki heldur fengið að tengjast við umrædd kerfi til að bjóða fram lausnir sínar. „Ef fyrirtæki vilja bjóða fram lausnir sem tengjast þurfa með einhverjum hætti við þessi grunnkerfi, koma þau að lokuðum dyrum. Jafnvel þótt viðskiptamaður landlæknis eigi höfundarréttinn að grunnkerfinu er nýjum aðilum sem vilja bjóða nýjar og hagkvæmar lausnir, meinað að komast á þennan markað. Landlæknir stendur í raun í vegi fyrir samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri,“ útskýrir hún.

Ríkisstyrkt einokun

Lára Herborg segir þessa afstöðu embættisins ekki standast lög. Hún segir að ef allir tengimöguleikar og viðbætur við hugbúnað væru útilokaðir á grundvelli höfundarréttar þá ættu örfáir aðilar internetið og allt sem tengist hugbúnaðarkerfum. Það myndi leiða til einokunarstöðu á gervöllu internetinu og á öllum hugbúnaðarkerfum heims. Til að fyrirbyggja þetta séu skýrar reglur sem koma í veg fyrir að hugbúnaðarfyrirtæki geti með þessum hætti hindrað tengingar við kerfin þeirra. „Annars væri staðan sú að Apple eða Microsoft gætu bannað öðrum aðilum að búa til forrit í tölvur eða farsíma þar sem félögin ættu stýrikerfin. Lög mæla fyrir um að slík einokunarstaða skuli ekki vera fyrir hendi heldur eigi aðilar á markaði rétt á að laga sínar lausnir að slíkum grunnkerfum. Embætti landlæknis hefur þrátt fyrir þetta eingöngu átt í viðskiptum við einn aðila á markaði fyrir öll heilbrigðis- hugbúnaðarkerfin á Íslandi um áratugaskeið,“ segir Lára Herborg.

Allt útboðsskylt

Þá segir hún að kærunefnd útboðsmála sé þegar búin að úrskurða um að kerfi sambærileg þeim sem við þekkjum sem Heilsuveru og þjónusta og rekstur Heklu-heilbrigðisnets eigi að fara í útboð. Landlækni beri að veita aðilum á markaði aðgang til að tengjast þessum kerfum. „Umbjóðandi minn kærði innkaup landlæknis á allri þróun og sjálfstæðum viðbótum við sjúkraskrárkerfi Sögu, Heklu heilbrigðisnet og Heilsuveru, þar sem innkaupin voru aldrei boðin út. Kærunefndin féllst á langflestar kröfur umbjóðanda míns en landlæknir hefur virt þá niðurstöðu að vettugi og heldur ennþá fast í þá afstöðu að eiga bara viðskipti við einn aðila um allt sem tengist hugbúnaðarkerfum heilbrigðiskerfisins á Íslandi,“ segir Lára Herborg að lokum.

Heilbrigðishugbúnaður

Bjóða ekki út þróun og uppsetningu á Heilsuveru og Heklu heilbrigðisneti.

Landlæknir á eingöngu viðskipti við einn aðila um allar þjónustur og viðbætur við umrædd kerfi, sem nema umtalsverðum fjárhæðum á ári.

Nýir aðilar fá ekki að tengjast við þessi kerfi ef þeir vilja bjóða nýjar og hagkvæmar lausnir og komast því ekki á þennan markað.

Landlækni ber skv. úrskurði að bjóða allt út, en gerir ekki.