Fjölskyldan Smári og Ólöf Helga, sonur þeirra Orri og barnabörnin á 50 ára brúðkaupsafmæli hjúanna.
Fjölskyldan Smári og Ólöf Helga, sonur þeirra Orri og barnabörnin á 50 ára brúðkaupsafmæli hjúanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Smári Kristjánsson fæddist 26. mars 1949 í Reykjavík og ólst upp að mestu leyti í Vesturbænum. „Ég er þar af leiðandi mikill KR-ingur enda æfði ég og lék með þeim fótbolta frá 7 ára til 17 ára

Smári Kristjánsson fæddist 26. mars 1949 í Reykjavík og ólst upp að mestu leyti í Vesturbænum.

„Ég er þar af leiðandi mikill KR-ingur enda æfði ég og lék með þeim fótbolta frá 7 ára til 17 ára. Við áttum m.a. öflugan 3. flokk árið 1964 sem tapaði ekki leik allt sumarið og vann öll mót. Ég hef einnig haldið með Chelsea síðan ég var 12 ára og er þess vegna með elstu stuðningsmönnum þeirra hér á landi.

Ég var nokkur sumur í sveit á Brúarlandi á Mýrum hjá yndislegu frændfólki, Brynjúlfi bróður mömmu og konu hans Halldóru ásamt barnafjöld og undi mér vel við leik og störf.“

Smári gekk í Melaskóla, síðan í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og þá í Gagnfræðaskóla verknáms. Hann bjó tvö ár á Laugarvatni og vann við byggingu húsmæðraskóla og íþróttaskóla og fleira hjá Böðvari Ingimundarsyni. „Bróðir minn Pálmi reddaði mér þeirri vinnu. Ég flutti síðan 1968 niður á Selfoss, hitti frúna og hóf nám í bílasmíði. Ég vann við það í nokkur ár.“

Smári spilaði á bassa í hljómsveitinni Mánum, en Mánar voru ein helsta bítla- og hipparokksveitin á Íslandi og stærsta hljómsveitin á Suðurlandi. „Þótt ég segi sjálfur frá þá þýddi ekkert fyrir aðrar sveitir að koma hingað meðan það var alltaf fullt hjá okkur, hvort sem það var á Flúðum eða í Aratungu. Svo var ég í ýmsum fleiri hljómsveitum, Kaktus og fleirum, þegar sveitaböllin voru í hávegum höfð.“

Smári spilaði einnig seinna með Kvartett Kristjönu Stefáns og Stórsveit Suðurlands og fleiri sveitum. „Ég hef leikið inn á ansi margar plötur með hinum og þessum í gegnum tíðina. Ég var einnig nokkra vetur í Samkór Selfoss.“

Smári lærði húsasmíðina hjá Selósi og vann við það í nokkur ár. „Þar sem bakið þoldi það ekki skipti ég yfir í Iðnaðarbankann í nokkurn tíma og tók árið 1989 við starfi umdæmisstjóra VÍS á Suðurlandi og kláraði starfsferil minn þar. Vestasta skrifstofan var í Þorlákshöfn og svo var farið alveg austur á Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjar voru innifaldar í þessu. Það var því heilmikil yfirferð í þessu oft og tíðum.“

Smári var allmörg ár í stjórn Knattspyrnudeildar umf. Selfoss.

„Núna er ég að aðstoða son minn sem rekur bílaleigu. Það þarf að þrífa þetta og dytta að þessu og ég er að hjálpa honum við það svolítið.“

Smári segist alveg hættur að spila opinberlega. „Sá kvóti er búinn, held ég. Ég er bara með hljóðfærin í höndunum hérna heima, gítarinn og bassann. Svo er ég svo heppinn að eiga sonarson, nafna minn, sem er búinn að taka við keflinu og farinn að spila í danshljómsveit. Tónlistargenin sem við Helgi bróðir fengum koma örugglega frá pabba. Hann rak hljóðfæraverkstæði á Óðinsgötu og hann náði lagi á allt sem hann kom nálægt, karlinn.“

Fjölskylda

Eiginkona Smára er Ólöf Helga Bergsdóttir, f. 23.1. 1951, snyrtifræðingur. „Við höfum búið á Selfossi alla okkar búskapartíð, þar af 52 ár í sama húsinu sem við byggðum sem krakkar.“

Foreldrar Ólafar Helgu voru hjónin Bergur Þórmundarson, f. 27.10. 1915, d. 27.10. 1991, mjólkurfræðingur, og Auður Sigurjónsdóttir, f. 22.1. 1920, d. 21.1. 2009, húsmóðir. Þau voru búsett á Selfossi.

Sonur Smára og Ólafar er Orri Ýrar Smárason, f. 10.5. 1970, framkvæmdastjóri á Selfossi. Börn hans eru A. Smári, f. 2005, Ólöf Helga, f. 2010, og Þórunn Lind, f. 2012.

Systkini Smára: Pálmi Kristjánsson, f. 9.9. 1939, d. 25.7. 2004, húsasmíðameistari, síðast búsettur í Kópavogi; Lára Kristjánsdóttir, f. 2.8. 1941, fv. skrifstofumaður hjá ÍSAL, búsett á Selfossi, og Helgi E. Kristjánsson, f. 12.8. 1946, d. 8.3. 2016, tónlistarmaður, síðast búsettur á Selfossi.

Foreldrar Smára voru hjónin Kristján Sigurjónsson, f. 24.9. 1913, d. 11.5. 1975, húsgagnasmiður, og Ása Eiríksdóttir f. 26.6. 1914, d. 5.5. 1995, húsmóðir og fleira. Þau voru búsett í Reykjavík.