Helguskúr Í huga margra er Helguskúr „síðasti skúrinn í bænum.“
Helguskúr Í huga margra er Helguskúr „síðasti skúrinn í bænum.“ — Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson
„Við í Gafli höfum sent áskorun til sveitarstjórnar Norðurþings um að varðveita Helguskúr og rífa hann ekki,“ segir Snorri Guðjón Sigurðsson, formaður Gafls, félags um þingeyskan byggingararf. Snorri segist finna fyrir miklum stuðningi Húsvíkinga við að vernda Helguskúr og ánægju með áskorunina

„Við í Gafli höfum sent áskorun til sveitarstjórnar Norðurþings um að varðveita Helguskúr og rífa hann ekki,“ segir Snorri Guðjón Sigurðsson, formaður Gafls, félags um þingeyskan byggingararf. Snorri segist finna fyrir miklum stuðningi Húsvíkinga við að vernda Helguskúr og ánægju með áskorunina. Hann segir að þótt sú ákvörðun hafi verið tekin í sveitarstjórn að Helguskúr myndi víkja strax árið 2017, þá sé það þannig að bæjarbúar séu núna að vakna upp við að þetta sé að fara að gerast. „Hér á Húsavík var fullt af beitingaskúrum, en Helguskúr er síðasti skúrinn í bænum og það væri synd fyrir okkar sögu að hann yrði rifinn.“

Snorri segir að samtökin hafi ekki sérstaka skoðun á staðsetningu Helguskúrs, og þau eru opin fyrir að hann verði færður, en best væri að hann væri samt við eða nálægt hafnarsvæðinu vegna augljósrar tengingar við sjóinn. Hann segir að möguleikar Helguskúrs sem safns hafi komið í ljós á Mærudögum, þegar hann var einn vinsælasti áningarstaður gesta og frábært tækifæri til að stíga inn í horfinn heim. „Það sýnir að það væri auðvelt að aðstoða Helga Héðinsson eiganda Helguskúrs og fjölskyldu hans að útbúa gott safn sem gæti verið bænum til sóma.“

Undirskriftir um að varðveita Helguskúr eru nú á þriðja hundrað á Ísland.is. doraosk@mbl.is