Það er merkilegt hvað stríðsátök hafa komið mikið við sögu hjá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og haft áhrif á möguleika þess til að komast á EM í Þýskalandi í sumar. Þegar Rússum var vísað úr keppni í Þjóðadeildinni árið 2022 í kjölfar…

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Það er merkilegt hvað stríðsátök hafa komið mikið við sögu hjá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og haft áhrif á möguleika þess til að komast á EM í Þýskalandi í sumar.

Þegar Rússum var vísað úr keppni í Þjóðadeildinni árið 2022 í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu áttu þeir að vera í riðli með Íslandi.

Hvernig leikir gegn þeim hefðu farið veit enginn en Ísland náði öðru sæti riðilsins sem reyndist ótrúlega dýrmætt.

Þar með komst liðið í umspilið og dróst þar gegn Ísrael á útivelli. Vegna stríðsátakanna á Gasa varð Ísrael að spila heimaleik sinn í Ungverjalandi.

Ísland vann þar glæsilegan sigur, 4:1. Eflaust hefði verið erfiðara að spila í Ísrael án þess að lítið sé gert úr flottri frammistöðu.

Nú er fram undan úrslitaleikur við Úkraínu í kvöld. Sá heimaleikur Úkraínumanna fer fram í Wroclaw í Póllandi – vegna fyrrnefndrar innrásar sem enn stendur yfir.

En þetta verður samt erfiður útileikur. Úkraínumenn fjölmenna á leikinn og verða í yfirgnæfandi meirihluta í stúkunni í Wroclaw.

Ég skaust í kvöldmat á veitingastað gegnt hótelinu mínu í pólsku borginni í gærkvöld. Þar var stór hópur Úkraínumanna að hita upp fyrir leikinn og hjá þeim ríkti stuð og stemning þrátt fyrir ástandið í heimalandinu.

Þessir 500-600 Íslendingar sem væntanlegir eru á leikinn munu eiga við ofurefli að etja í stúkunni í kvöld. Úkraína mun fá gríðarlegan stuðning og ljóst er að íslenskur sigur yrði magnað afrek.