Alþingi Eyjólfur Ármannsson hefur talað mest þingmanna til þessa.
Alþingi Eyjólfur Ármannsson hefur talað mest þingmanna til þessa. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, hefur tekið afgerandi forystu í keppninni um titilinn ræðukóngur Alþingis. Margfaldur titilhafi, píratinn Björn Leví Gunnarsson, kemur næstur Eyjólfi

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, hefur tekið afgerandi forystu í keppninni um titilinn ræðukóngur Alþingis. Margfaldur titilhafi, píratinn Björn Leví Gunnarsson, kemur næstur Eyjólfi.

Þingið fór í páskafrí sl. þriðjudag, 22. mars. Þingmenn snúa aftur til starfa mánudaginn 8. apríl og hefst þá vorþingið.

Þegar þingið fór í jólafrí var Björn Leví í efsta sætinu en Eyjólfur í 2. sæti. Eyjólfur hefur hins vegar gefið vel í á vetrarþinginu. Á yfirstandandi löggjafarþingi, hinu 154. í röðinni, hefur hann flutt 99 ræður og gert 177 athugasemdir/andsvör við ræður annarra þingmanna, eða samtals 276. Eyjólfur hefur talað í samtals 1.048 mínútur, eða í rúma 17 klukkutíma. Björn Leví hefur flutt 319 ræður og athugasemdir og talað í 900 mínútur samtals.

Inga mælskust kvenna

Næst kemur Inga Sæland, Flokki fólksins (156/755 mínútur), og hefur talað mest þingkvenna til þessa.

Síðan koma eftirtaldir: Guðmundur Ingi Kristsinsson Flokki fólksins (254/666), Gísli Rafn Ólafsson pírati (162/558), Bergþór Ólason Miðflokki (166/523), Njáll Trausti Friðbertsson Sjálfstæðisflokki (118/445/, Andrés Ingi Jónsson pírati (131/439), Sigmar Guðmundsson Viðreisn (136/435), Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir pírati (126/416) og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri-grænum (93/415).

Af ráðherrum hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra talað mest, flutt 170 ræður/athugasemdir og talað í 450 mínútur. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur flutt 121 ræðu/athugasemd og talað í 382 mínútur og Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hafur flutt 113 ræður/athugasemdir og talað í 361 mínútu.

Í ritinu Háttvirtur þingmaður, handbók um þingstörfin, má lesa að þingárið er frá öðrum þriðjudegi í september til jafnlengdar næsta árs. Það skiptist í þrjár annir: haustþing (fram að jólum), vetrarþing (fram að páskum) og vorþing (fram að þingfrestun; yfirleitt í lok maí eða í júní). Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er stefnt að frestun þingsins föstudaginn 14. júní.

Í yfirliti á vef Alþingis má sjá að fluttar hafa verið 3.485 ræður það sem af er þingi. Þá hafa verið gerðar 2.702 athugasemdir. Þingmenn hafa talað samtals í 331 klukkustund.