Orkuver Gert er ráð fyrir því að tekjur sem ríkissjóður hafi vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins frá orkufyrirtækjum gangi í Þjóðarsjóð.
Orkuver Gert er ráð fyrir því að tekjur sem ríkissjóður hafi vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins frá orkufyrirtækjum gangi í Þjóðarsjóð. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði að nýju fram lagafrumvarp um Þjóðarsjóð á Alþingi í síðustu viku. Slíkt frumvarp var fyrst lagt fram árið 2018 og endurflutt árið 2019 en afgreiðslu þess frumvarps var slegið …

Baksvið

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði að nýju fram lagafrumvarp um Þjóðarsjóð á Alþingi í síðustu viku. Slíkt frumvarp var fyrst lagt fram árið 2018 og endurflutt árið 2019 en afgreiðslu þess frumvarps var slegið á frest vegna breyttra aðstæðna af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Frumvarpið nú er að mestu samhljóða frumvarpinu sem síðast var lagt fram en nú er gert ráð fyrir að það taki gildi 1. janúar 2025. Þá bætist við nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að inngreiðslur í Þjóðarsjóð verði sem nemur 10% af arðgreiðslum frá orkufyrirtækjum í eigu ríkisins, en þegar skuldahlutfall hins opinbera hafi aftur lækkað niður í 30% af landsframleiðslu renni þær tekjur að fullu í sjóðinn. Þá er bætt inn ákvæði um að aukinn meirihluta, eða ⅔ greiddra atkvæða, þurfi til að samþykkja þingsályktunartillögu um úthlutun úr sjóðnum.

Tekjur af orkuauðlindum

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veita skuli framlög til Þjóðarsjóðs sem séu jafnhá öllum tekjum sem ríkissjóður hafi haft af arðgreiðslum, leigutekjum og öðrum tekjum vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins frá orkufyrirtækjum á næstliðnu ári. Þá getur sjóðurinn veitt viðtöku og ávaxtað aðra fjármuni sem Alþingi ákveður að leggja til hans í fjárlögum.

Segir í frumvarpinu að verði ríkissjóður fyrir verulegum fjárhagslegum skakkaföllum af völdum ófyrirséðs áfalls, sem þjóðarbúið hafi orðið fyrir eða sem stafi af því að stjórnvöld hafi óhjákvæmilega þurft að gera ráðstafanir til að bregðast við slíku áfalli, sé heimilt að veita ríkissjóði fé úr Þjóðarsjóði, sem nemi allt að helmingi eigna sjóðsins.

Áform um Þjóðarsjóð byggjast á því viðhorfi að nýta beri góð ár og hagstæð skilyrði í þjóðarbúskapnum til að sýna fyrirhyggju og ábyrgð í ríkisfjármálum og búa þannig í haginn fyrir framtíðina. Núverandi kynslóðir taki á sig nokkurn fórnarkostnað með því að fresta samtímaneyslu og leggja lítinn hluta af sparnaði sínum til hliðar í þágu þess að treysta stöðu afkomenda sinna. En tekið er fram að hvorki verði dregið á sjóðinn til að fjármagna aukinn ríkisrekstur, tilfærslur til heimila eða framkvæmdir í þeim tilgangi að vega á móti efnahagslægð, né heldur verði hluta af afkomu ríkissjóðs veitt inn í sjóðinn í efnahagsuppgangi. Stjórn ríkisfjármála eigi að þjóna þessum hagstjórnarlegu þörfum á hefðbundinn hátt með því að skila afgangi og greiða niður skuldir í uppsveiflu en draga úr afgangi og jafnvel mynda halla og auka skuldir í niðursveiflu.

Slegið á frest

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveirunnar og umfangsmiklar mótvægisráðstafanir stjórnvalda á árunum 2020 og 2021 hafi óhjákvæmilega haft í för með sér að fjárhagslegur styrkur ríkissjóðs laskaðist og skuldir jukust umtalsvert. Þar sem skuldahlutfall hins opinbera hafði færst talsvert upp fyrir lögboðið hámark var talið að svigrúm til uppbyggingar á slíkum áfallasjóði hefði þrengst mikið og var áformum um sjóðinn slegið á frest.

Nú hafi settu markmiði um að stöðva hækkun skulda sem hlutfalls af landsframleiðslu verið náð og áætlanir geri ráð fyrir að hlutfallið geti farið að lækka aftur að nokkrum árum liðnum. Skuldahlutfall hins opinbera nemi nú um 39%, þar af séu um 32% skuldir ríkissjóðs en um 7% skuldir sveitarfélaga. Telja megi góðar horfur á því að ef áfram verður haldið á þeirri braut jafnvægis í opinberum fjármálum sem mörkuð er í gildandi fjármálaáætlun stjórnvalda verði skuldahlutfallið komið aftur niður í lögboðið hámark innan tíu ára eða jafnvel fyrr ef efnahagsframvindan verður hagstæð.

75 milljarðar

Tilefnið til uppbyggingar á áfallavörnum í mynd Þjóðarsjóðs standi óhaggað eftir sem áður. Segja megi að heimsfaraldurinn hafi fært heim sanninn um að slíkur viðbúnaður geti haft mikla þýðingu til að jafna áhrif stórra áfalla á ríkisfjármálin og greiða fyrir fjármögnun við aðstæður þegar markaðsaðgengi geti verið kostnaðarsamt. „Í þessu sambandi má nefna að hefðu lög um Þjóðarsjóð gengið í gildi í byrjun ársins 2020 og tekjur af arðgreiðslum orkufyrirtækjanna runnið óskertar í hann þá hefðu eignir sjóðsins verið orðnar um 75 milljarðar kr. á þessu ári. Á hinn bóginn er ástæða til að aðlaga áform um sjóðinn breyttum aðstæðum á þann veg að sjóðsmyndunin verði fremur hægfara þangað til skuldahlutfall ríkissjóðs verður aftur komið niður fyrir þau mörk sem talin eru hæfileg í lögum um opinber fjármál,“ segir í greinargerðinni.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson