Stjórnsýsla Sífellt meiri hiti færist í bæjarpólitíkina í Hveragerði.
Stjórnsýsla Sífellt meiri hiti færist í bæjarpólitíkina í Hveragerði. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hermann Nökkvi Gunnarsson hng@mbl.is Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðis, kveðst ekki átta sig á gagnrýni sveitarstjórnar Ölfuss í kjölfar undirritunar samnings meirihluta Hveragerðisbæjar við byggingarverktaka um viðbyggingu við leikskólann Óskaland.

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðis, kveðst ekki átta sig á gagnrýni sveitarstjórnar Ölfuss í kjölfar undirritunar samnings meirihluta Hveragerðisbæjar við byggingarverktaka um viðbyggingu við leikskólann Óskaland.

Bæjarstjórn Hveragerðis undirritaði samninginn án þess að sveitarstjórn Ölfuss fengi að taka afstöðu til hans, en leikskólinn er að 9% í eigu Ölfuss.

Í samningi milli sveitarfélaganna tveggja kemur fram að ekki megi hefja stofnframkvæmdir nema með samþykki beggja sveitarstjórna, að því er kemur fram í bókun sveitarstjórnar Ölfuss.

„Verkferlar sem var fylgt í þessu verkefni eru nákvæmlega þeir sömu og undanfarinn áratug,“ segir Jóhanna í samtali við Morgunblaðið en bætir við að Hveragerði vilji áfram tryggja gott samstarf og samtal á milli sveitarfélaganna.

„Það kom okkur, meirihluta bæjarstjórnar, í opna skjöldu að þetta kæmi þeim á óvart því það var búið að samþykkja þetta í fjárhagsáætlun beggja sveitarfélaga,“ segir Jóhanna.

Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að Ölfus myndi ítreka við Hveragerðisbæ að ekkert yrði gert með eignina nema með samþykki sveitarstjórnar Ölfuss. „Þetta er ekki einkamál Hveragerðisbæjar, að höndla með eignir beggja sveitarfélaga,“ sagði Elliði.

Spurð hvort Hveragerði muni leita eftir samþykki Ölfuss fyrir undirritun samningsins segir Jóhanna:

„Við skoðum næstu skref með sérfræðingum okkar og starfsfólki.“

Fundarboð eftir undirritun

Hún segir að forseti bæjarstjórnar Hveragerðis hafi boðið bæjarstjórn Ölfuss á fund til að ræða þessar framkvæmdir, eftir að Hveragerði hafði undirritað samninginn.

„Meirihlutinn hafnaði því boði en minnihlutinn þáði boðið og við höfum átt gott samtal við minnihlutann,“ segir Jóhanna en bætir við að bæjarstjórn sé til í að skoða mögulegar breytingar á verklagi ef þess verður óskað.

Hún segir málið fyrst og fremst snúast um að tryggja fólki leikskólapláss. „Ég trúi ekki öðru en að Ölfusingar séu tilbúnir í samtal um að þjónusta íbúa sína,“ segir Jóhanna.

Hvert er samtalið ef það er búið að undirrita samninginn?

„Ég segi bara aftur eins og ég er búin að segja margsinnis: verklagið er nákvæmlega það sama og hefur átt sér stað um allar aðrar framkvæmdir í stjórnsýslu þessara tveggja sveitarfélaga. Hingað til hefur það verið farsælt,“ segir hún.

Viðbygging við Óskaland

Leikskólinn er í eigu bæði Hveragerðis og Ölfuss.

Samningur var undirritaður af hálfu Hveragerðis við byggingaraðila án þess að afstaða Ölfuss lægi fyrir.

Elliði segir að Hveragerði verði að kanna afstöðu Ölfuss.

Formaður bæjarráðs segir þá kröfu verða skoðaða.