Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson yrkir á Boðnarmiði: Lóan er komin landsins til, lifnar bros á vörum. Þó að snjór enn þeki gil þá er hann á förum. Philip Vogler Egilsstöðum heldur áfram: Landans geðið léttir ætíð lóa um vor létt svo þyki sprækum spor, spáir ei í hor og slor

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson yrkir á Boðnarmiði:

Lóan er komin landsins til,

lifnar bros á vörum.

Þó að snjór enn þeki gil

þá er hann á förum.

Philip Vogler Egilsstöðum heldur áfram:

Landans geðið léttir ætíð lóa um vor

létt svo þyki sprækum spor,

spáir ei í hor og slor.

Helgi Zimsen segir ágætt að vera bjartsýnn, en hefur samt áhyggjur af þessari lóu.

Fjandinn með báli og brandi

blandar nú gosið og vandi

virðist hér stór

og vorið það fór

… en lóan er komin að landi.

Ingólfur Ómar Ármannsson á síðasta orðið:

Ennþá herðir kuldakló

kylja gustar nöpur.

Norpar lóa út í mó

hrakin köld og döpur.

Gunnar J. Straumland yrkir:

Þeir sem blíða bullið tjá

busla mest en vaða grynnst.

Við ættum helst að hlusta á þá

hógværu sem gaspra minnst.

Limrur eftir Hannes Sigurðsson:

Hildur var alltaf í önnum

og eignaðist börn í hrönnum.

Fyrst eitt og svo tvö

síðan átta og þá sjö,

með einungis átján mönnum.

Hún tók þetta svona í törnum

og tefldi ekki fram neinum vörnum.

Hún elskaði menn

og þá alla í senn,

en hafði aldrei neitt gaman af börnum.

Kári Erik Halldórsson segir að lífið sé afstætt:

Úr ýmsu fólk dó hér í denn,

og deyr víst úr sitthverju enn.

En sumir þó lifa

ég segi og skrifa,

lengur en langelstu menn.

Eiríkur Jónsson spyr: Kannast einhver við þessa samsuðu?

Latur maður lá í skut

Latur var hann þegar hann sat

Latur fékk oft lítinn hlut

En latur gat þó étið mat.

Kanaríljóð. Dagur 36 eftir Hallmund Guðmundsson:¶Nú heima ríkir hríðarkóf¶en hér er dandalablíða.¶Og ef mér ei veldi vitið hóf,¶- þá væri ég barn að smíða.¶Benedikt Jóhannsson segir á alþjóðlega hamingjudeginum:

Fornu mörg ég fræðin nam

um fjölmargt hafa þau upplýst mig:

Vísast er hamingja' að vera í ham

og vera fær um að hemja sig.