Öryggisráðið Gilad Erdan, sendiherra Ísraels hjá SÞ, talar á fundi öryggisráðsins í gær.
Öryggisráðið Gilad Erdan, sendiherra Ísraels hjá SÞ, talar á fundi öryggisráðsins í gær. — AFP/Angela Weiss
Stjórnvöld í Ísrael sögðu í gær að ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að sitja hjá í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær myndi trufla getu þeirra til þess að berjast við hryðjuverkasamtökin Hamas, sem og tilraunir Ísraelsmanna til þess að frelsa þá…

Stjórnvöld í Ísrael sögðu í gær að ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að sitja hjá í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær myndi trufla getu þeirra til þess að berjast við hryðjuverkasamtökin Hamas, sem og tilraunir Ísraelsmanna til þess að frelsa þá rúmlega hundrað gísla sem enn eru í haldi samtakanna eftir hryðjuverkin 7. október.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ákvað í gær að hætta við fyrirhugaða heimsókn sendinefndar til Bandaríkjanna í gær, en sendinefndin átti að ræða áætlanir Ísraelshers um landhernað í Rafah-borg. Sagði í tilkynningu forsætisráðuneytisins að Bandaríkjastjórn hefði vikið frá fyrri grundvallarafstöðu sinni í málinu, og því væri ekki lengur ástæða fyrir sendinefndina að halda til Washington-borgar.

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði að Ísraelsher myndi ekki láta af herferð sinni vegna ályktunar öryggisráðsins, en hann var staddur í Washington, þar sem hann ætlaði að ræða við Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafa Bidens Bandaríkjaforseta, og Antony Blinken utanríkisráðherra. „Við höfum engan siðferðilegan rétt til þess að stöðva stríðið á meðan gíslar eru enn í haldi á Gasasvæðinu,“ sagði Gallant og bætti við að ef Ísraelsmenn næðu ekki að vinna fullnaðarsigur á Hamas-samtökunum gæti það fært Ísraelsmenn nær stríði við Hisbollah-samtökin í norðurhluta Ísraels.

Ályktun öryggisráðsins kallar eftir tafarlausu vopnahléi og krefst þess að Hamas-samtökin og önnur vígasamtök frelsi þá gísla sem teknir voru í hryðjuverkunum 7. október. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að það yrði „ófyrirgefanlegt“ ef ályktuninni verður ekki hlýtt.