Evrópa Viðbragðssveitir hafa verið stofnaðar í tólf Evrópulöndum.
Evrópa Viðbragðssveitir hafa verið stofnaðar í tólf Evrópulöndum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hingað til hefur Ísland ekki haft neinar sérstakar viðbragðssveitir sem geta brugðist við atburðum sem eru stærri en rútuslys,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, sérfræðingur í bráðalækningum og formaður undirbúningshóps um sérstaka…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Hingað til hefur Ísland ekki haft neinar sérstakar viðbragðssveitir sem geta brugðist við atburðum sem eru stærri en rútuslys,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, sérfræðingur í bráðalækningum og formaður undirbúningshóps um sérstaka vottaða viðbragðssveit sem var stofnuð í heilbrigðisráðuneytinu eftir samráð við ríkisstjórnina. „Það hafa verið til greiningarsveitir á sjúkrahúsunum sem geta farið á vettvang og athugað með forgangsröðun og fyrstu meðferð slasaðra, en ef atburðir verða stærri en það höfum við ekki haft úrræði.“ Hann bendir sem dæmi á atburðina í Grindavík í nóvember og segir að ekkert samhæft bráðaátak hefði verið tilbúið ef illa hefði farið í Grindavík sem yrði að vinnast með almannavörnum.

Jón Magnús segir að undanfarin ár hafi það verið stefna Evrópuráðsins og Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar að aðildarríki komi sér upp svona viðbragðssveit til að bregðast við stærri atburðum, hvort sem það væru stór hópslys, farsóttir, hópsýkingar eða náttúruhamfarir. „Við vitum t.d. ekki hvað verður ef það yrði sprengigos í Öskju en þurfum að geta brugðist við þegar þörfin skapast,“ segir hann en bætir við að það sé verið að hugsa um að almannavarnir gætu virkjað sveitina til vettvangs en ekki að þörfin sé á þjónustu hennar hversdags. „Hins vegar þarf viðbragðsgetan að vera til staðar og allir verkferlar að vera skýrir.“

Í sveitinni yrðu læknar, hjúkrunarfræðingar og stuðningsfólk sem myndi starfa víðsvegar um landið og núna í undirbúningsvinnunni er verið að skoða fjármögnun, kaup á búnaði og hvernig þjálfun starfsfólks sveitarinnar yrði háttað. „Hugmyndin er að það verði komin starfhæf sveit fyrir lok ársins 2026.“

Tólf Evrópulönd hafa stofnað sambærilegar viðbragðssveitir, þar á meðal Noregur, sem hefur lagt áherslu á viðbragð á norðurslóðum, en þeir hafa boðið Íslendingum aðstoð sína við stofnun sveitarinnar. Þá er einnig hugsað að sveitin gæti veitt aðstoð erlendis, segir Jón Magnús og bendir á starf gömlu rústabjörgunarsveitarinnar sem fór m.a. til Haítí á sínum tíma til hjálparstarfs, en sú sveit er ekki lengur virk. „En á sambærilegan hátt gæti Ísland boðið fram viðbragðssveit erlendis ef þörf væri á því,“ segir hann að lokum.