Baltimore Gámaflutningaskipið Dali sést hér undir braki Francis Scott Key-brúarinnar, en brúin hrundi algjörlega eftir að skipið sigldi á hana.
Baltimore Gámaflutningaskipið Dali sést hér undir braki Francis Scott Key-brúarinnar, en brúin hrundi algjörlega eftir að skipið sigldi á hana. — AFP/Roberto Schmidt
Wes Moore, ríkisstjóri Maryland-ríkis, lýsti yfir neyðarástandi í ríkinu í gær eftir að gámaflutningaskipið Dali rakst á Francis Scott Key-brúna í borginni Baltimore í fyrrinótt með þeim afleiðingum að brúin hrundi

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Wes Moore, ríkisstjóri Maryland-ríkis, lýsti yfir neyðarástandi í ríkinu í gær eftir að gámaflutningaskipið Dali rakst á Francis Scott Key-brúna í borginni Baltimore í fyrrinótt með þeim afleiðingum að brúin hrundi. Atvikið átti sér stað um kl. hálftvö að staðartíma um nóttina, og var nokkur fjöldi bíla á brúnni þegar hún hrundi.

Björgunaraðilar héldu þegar í stað á vettvang og var óttast að mikill fjöldi fólks hefði lent í vatninu, en hitastig þess var um níu gráður á Celsíus. James Wallace, slökkviliðsstjóri Baltimore, sagði að ómsjárleit hefði leitt nokkra bíla í ljós í Patapsco-ánni, en sagði ekki hversu margir þeir voru.

Kafarar leituðu í vatninu fram eftir degi, og var að minnsta kosti sjö manns enn saknað um eftirmiðdaginn í gær. Sex hinna týndu eru viðgerðarmenn sem voru á brúnni þegar skipið lenti á henni. Tveimur þeirra var hins vegar bjargað úr vatninu. Reyndist annar þeirra heill á húfi, en hinn var fluttur á sjúkrahús í mjög alvarlegu ástandi.

Ekki talið hryðjuverk

Ekki var fyllilega ljóst í gær hvað hefði valdið árekstrinum, en stjórnvöld sögðu að ekkert benti til þess að um hryðjuverk hefði verið að ræða. Á myndbandsupptökum mátti sjá ljós skipsins kvikna og slokkna í tvígang, sem bendir til að um rafmagnstruflanir hafi verið að ræða.

Moore ríkisstjóri sagði einnig í gær að brúin hefði staðist allar skoðanir, en hún var fyrst opnuð árið 1977 og því komin til ára sinna. Rúmlega 11 milljónir bíla fara um brúna á hverju ári, en hún var mikilvægur hluti af vegakerfi Baltimore-borgar.

Hrun brúarinnar gæti haft mikil áhrif á efnahagslíf borgarinnar, þar sem lokað hefur verið fyrir umferð til og frá Baltimore-hafnar vegna atviksins. Er óvíst hvenær skipaflutningar geta hafist aftur, en Baltimore-höfn er sú níunda stærsta í Bandaríkjunum þegar horft er til inn- og útflutnings.

Maersk-skipafélagið sagði í gær að Dali hefði siglt undir fána Srí Lanka, og var það á leiðinni þangað þegar slysið varð. Harmaði Maersk slysið mjög í sérstakri yfirlýsingu.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson