Frammistaða íslenska liðsins var heilt yfir mjög góð. Varnarleikurinn í fyrri hálfleik var nánast fullkominn og liðið steig vart feilspor. Liðið hélt línunum vel og varðist sem ein heild, allt frá fremstu mönnum til aftasta manns

Frammistaða íslenska liðsins var heilt yfir mjög góð. Varnarleikurinn í fyrri hálfleik var nánast fullkominn og liðið steig vart feilspor. Liðið hélt línunum vel og varðist sem ein heild, allt frá fremstu mönnum til aftasta manns. Þá voru fremstu leikmenn liðsins alltaf hættulegir sóknarlega og Albert Guðmundsson skoraði stórkostlegt mark eftir stórkostlegt einstaklingsframtak. Íslenska liðið varðist vel í upphafi síðari hálfleiks en þegar líða fór á síðari hálfleikinn fór að draga vel af varnarmönnum liðsins. Úkraína jafnaði eftir að leikmenn íslenska liðsins voru of lengi að skila sér til baka. Sigurmarkið kom svo eftir að varnarmenn íslenska liðsins féllu of langt til baka og Úkraínumenn fengu allan tímann í heiminum til þess að athafna sig í vítateig Íslands.

Jóhann Berg Guðmundsson og Arnór Ingvi Traustason voru frábærir á miðsvæðinu, náðu vel saman og komu með þá ró sem liðið hefur skort á miðjunni í undanförnum leikjum. Albert og Hákon Arnar Haraldsson náðu vel saman í sóknarleiknum og hættulegustu sóknir íslenska liðsins komu eftir að þeir fengu smá tíma á boltann.

Því miður dugði það ekki til og íslenska liðið virkaði einfaldlega hálfbensínlaust á lokamínútunum. Ísland situr því eftir með sárt ennið og töpin verða ekki sárari en þetta. Á sama tíma fer leikurinn svo sannarlega í reynslubankann hjá yngstu leikmönnunum og framtíðin er björt hjá liðinu.