Svefnforrit vaxa árlega um 20% að vinsældum á alþjóðavettvangi að sögn Erlu sem er bjartsýn á framtíðina.
Svefnforrit vaxa árlega um 20% að vinsældum á alþjóðavettvangi að sögn Erlu sem er bjartsýn á framtíðina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svefnmeðferðarfyrirtækið Betri svefn hefur sett nýtt smáforrit á markaðinn sérstaklega ætlað konum. Forritið, sem gengur undir nafninu SheSleep, gerir konum kleift að kortleggja eigið svefnmynstur, sækja sér meðferð við svefnvanda í gegnum forritið, …

Svefnmeðferðarfyrirtækið Betri svefn hefur sett nýtt smáforrit á markaðinn sérstaklega ætlað konum.

Forritið, sem gengur undir nafninu SheSleep, gerir konum kleift að kortleggja eigið svefnmynstur, sækja sér meðferð við svefnvanda í gegnum forritið, fylgjast með tíðahring sínum og áhrifum hormóna á svefn og heilsu ásamt því að bjóða upp á almennan fróðleik um svefn og tækni til að ná slökun.

Dr. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og einn stofnenda Betri svefns, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að smíði forritsins hafi farið af stað fyrir þremur árum. Það sé hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum. „Þetta er eina forritið þar sem einblínt er á svefnvanda kvenna og sniðið að þeirra þörfum,“ segir Erla.

Hjá Betri svefni starfa ýmsir sérfræðingar á sviði svefns en sjálf hefur Erla unnið við málefnið síðastliðin fimmtán ár. „Ég er með doktorspróf í líf- og læknavísindum, með sérhæfingu í svefni. Ég hef stundað rannsóknir á svefnleysi og kæfisvefni og aukinni notkun hugrænnar atferlismeðferðar og öðrum lyfjalausum lausnum til að meðhöndla vandamálið.“

Svefnlyf skammtímalausn

Aðspurð segir Erla að svefnlyf séu skammtímalausn sem ekki eigi að nota í meira en fjórar vikur samfleytt. Mikil notkun þeirra hafi neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar.

Rannsóknir sýna að sögn Erlu að svefnleysi sé 40% algengara meðal kvenna og konur finni frekar fyrir neikvæðum afleiðingum svefnskorts, s.s þreytu, kvíða og depurð. „Kvenheilsa hefur verið vanrannsökuð í gegnum tíðina og áhrif hormóna, breytingaskeiðs og fleiri þátta á svefn hafa lítið verið skoðuð. Streita er mun algengari meðal kvenna og um 70% þeirra sem leita til Virk starfsendurhæfingar eru konur. Það er ljóst að svefn skiptir lykilmáli þegar kemur að heilsu og vellíðan og miðað við aukna áhættu kvenna á svefnvanda er löngu tímabært að koma með lausnir sem eru sérsniðnar að þeirra þörfum,“ útskýrir Erla.

Hún segir að í gegnum appið geti notendur fengið góð ráð við svefnvanda, meðal annars slökunaræfingar og jóga. „Notandinn getur farið í sex mánaða hugræna atferlismeðferð í gegnum forritið.“

Einnig er hægt að tengjast sérfræðingum á sviðinu beint í gegnum heilsuforritið Kara Connect.

Spurð um fjármögnun verkefnisins segir Erla að styrkur hafi fengist úr Tækniþróunarsjóði auk þess sem stofnendur hafi lagt því til fé. „Við erum í viðræðum við fjárfesta um viðbótarfjármagn. Þær viðræður ganga vel og við höfum fengið góðar viðtökur. Við sjáum fyrir okkur tveggja fasa fjármögnun. Annars vegar til að ljúka markmiðum hér á landi og hins vegar úti í hinum stærri heimi. Þar hyggjumst við leita í stærri sjóði.“

Gríðarlegur skalanleiki

Erla segir að skalanleiki lausnarinnar sé gríðarlegur enda vandamálið alþjóðlegt. „Svefnforrit vaxa árlega um 20% að vinsældum á alþjóðavettvangi. Við erum bjartsýn á okkar lausn vegna sérstöðu hennar. Sérhæfingin er mjög skýr. Að baki forritinu liggur áratuga reynsla og sérfræðiþekking. Það yrði því erfitt að afrita lausnina í fljótheitum.“

Eigendur snjallúra ættu að kannast við þá eiginleika tækjanna að geta mælt gæði svefns. Erla segir að úrin muni geta tengst appinu. Þau séu hins vegar takmörkuð að því leyti að þau hafi engar ráðlegginar við vandanum eins og SheSleep býður upp á.

Um það hvort lagður hafi verið fjárhagslegur mælikvarði á svefnvanda heimsins segir Erla að um dýrasta heilsufarsvanda veraldar sé að ræða. „Hann skilar sér í tvöfalt fleiri veikindadögum. Svefnleysi býður upp á aukna hættu á slysum og veikindum og talið er að óbeinn kostnaður vegna vandans nemi um 2% af landsframleiðslu í OECD-löndunum.“

Erla segir okkur lifa í heimi þar sem hraði sé mikill, og áreiti og streita sömuleiðis. „Þó að það hafi orðið vitundarvakning á síðustu árum sjáum við samt aukningu í svefnvanda. Um helmingur fullorðinna segist ekki sofa vel og konur eru í meiri hættu en karlar.“

Svefnleysi hefur þannig áhrif á flesta þætti daglegs lífs, bæði líkamleg og andleg. Það hafi áhrif á dagleg störf, framleiðni, fjölgi mistökum og hafi áhrif á félags- og fjölskyldulíf.

„Það er eðlilegt að sofa stundum illa, þegar það er álag í lífinu, en þegar þú finnur að svefnvandi hefur hamlandi áhrif á líf þitt, hvort sem það er lágt orkustig fyrir daginn eða einbeiting er léleg eða annað, þá er kominn tími til að skoða málið betur. Ef þú ert t.d. andvaka nokkra daga í viku hefur það mjög líklega mikil áhrif á þitt daglega líf.“

Byrja líklega í Danmörku

Erla segir að lokum að árið 2024 verði notað til að prufukeyra appið á Íslandi. Eftir það verði lagst í víking. „Við erum nú þegar í sambandi við sérfræðinga í Svíþjóð. Við munum líklega byrja okkar útrás þar og í Danmörku. Við erum með miklar væntingar um að geta hjálpað konum um allan heim að sofa betur.“

Forritið fæst gegn gjaldi. „Við bjóðum bæði mánaðaráskrift á um 800 krónur (6 USD) á mánuði eða ársáskrift. Í áskriftinni er innifalin fyrrnefnd sex vikna hugræn atferlismeðferð.“

Erla ítrekar gildi þess að hægt sé að nálgast slíka meðferð í appi. „Aðgengi að meðferð við vandanum er mjög skert og biðlistar langir. Við teljum það algjöra byltingu að geta leitað sér hjálpar í smáforriti,“ segir Erla að lokum.