Útgáfa Magnús Þór Sigmundsson er afkastamikill tónlistarmaður.
Útgáfa Magnús Þór Sigmundsson er afkastamikill tónlistarmaður. — Ljósmynd/Matthías Hlífar Mogensen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson er vægast sagt afkastamikill. Í liðinni viku var endurútgáfa á plötu hans Still Photographs komin á helstu streymisveitur eins og Spotify og YouTube, félagarnir Magnús og Jóhann Helgason voru með stórtónleika í Hljómahöllinni sl

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson er vægast sagt afkastamikill. Í liðinni viku var endurútgáfa á plötu hans Still Photographs komin á helstu streymisveitur eins og Spotify og YouTube, félagarnir Magnús og Jóhann Helgason voru með stórtónleika í Hljómahöllinni sl. föstudagskvöld, hann byrjaði að selja nýjan 16 laga geisladisk sinn Ég lofa þig líf nú í byrjun dymbilviku og vínilplata með sömu lögum ásamt 60 laga nótnabók fyrir píanó og gítar er væntanleg í lok maí. Þær eru komnar í forsölu hjá höfundi (mandroidman@gmail.com og á Facebook) og eru 300 númeraðir pakkar í boði.

Tónlistarferill Magnúsar Þórs hefur varað í yfir hálfa öld. Hann hefur gefið út milli 20 og 30 plötur frá 1972 og samið 300 til 400 lög, sem hafa komið út í eigin flutningi og annarra tónlistarmanna og söngvara. Margar plötur hans hafa selst vel og lög eins og „Ást“, „Ísland er land þitt“, „Álfar“ og „Jörðin sem ég ann“ hafa lifað með þjóðinni frá því að hann gerði þau heyrinkunn.

Styrkur

Platan Still Photographs kom út 1976 og hefur verið uppseld í áratugi. Með Magnúsi Þór leika þekktir erlendir tónlistarmenn eins og til dæmis Barry Morgan trommuleikari, sem hefur m.a. spilað með Elton John, og Herbie Flowers bassaleikari, sem er þekktastur fyrir að hafa samið nóturnar fyrir bassa í laginu „Walk on the Wild Side“ og spilað það með Lou Reed. „Hann er einn frægasti bassaleikari í heimi og Terry Davies, sem vann plötuna með mér, er margfrægur.“ Lagið „Blue Jean Queen“ sló strax í gegn, „varð klassískt fyrir löngu“, staðhæfir höfundurinn og bætir við að mikilvægt hafi verið að gefa plötuna út á stafrænu formi.

Margir leggja Magnúsi Þór lið á nýja diskinum. „Þetta er afrakstur undanfarinna ára,“ segir hann. „Ég gríp í hljóðfæri daglega og er alltaf að semja.“ Þegar komi að útgáfu fari hann yfir afrakstur undanfarins áratugar og velji bestu lögin. „Mér finnst skemmtilegustu lögin vera þegar ég fæ hugmynd og hún streymir fram án þess að ég nái varla að leggja hana á minnið.“ Upptökur í hljóðverinu Sundlauginni í Mosfellsbæ hafi enda gengið vel. „Við tókum þessi 16 lög upp á 20 klukkutímum og þurftum bara eitt eða tvö rennsli við mörg þeirra.“ Söngurinn hafi líka verið tekinn upp samtímis en ekki aftur og aftur eins og margir geri. „Ég vil að söngurinn sé lifandi og í tengslum við hljóðfæraleikinn þegar hann gerist.“

Magnús Þór er ánægður með lífið undanfarna áratugi og nafn disksins vísar til þess. „Ég þakka fyrir gengin spor. Mér líður vel og þegar ég horfi til baka er ég sáttur við flest undanfarin 40 ár eða síðan ég tók fjallið og tróð því ofan í dalinn.“