Sorg Kona leggur blóm til minningar um fórnarlömb árásarinnar.
Sorg Kona leggur blóm til minningar um fórnarlömb árásarinnar. — AFP/Natalia Kolesnikova
Alexander Bortníkov, yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB, sakaði í gær Bandaríkin, Bretland og Úkraínu um að hafa staðið á bak við hryðjuverkið í Moskvu á föstudaginn, þar sem að minnsta kosti 139 manns féllu

Alexander Bortníkov, yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB, sakaði í gær Bandaríkin, Bretland og Úkraínu um að hafa staðið á bak við hryðjuverkið í Moskvu á föstudaginn, þar sem að minnsta kosti 139 manns féllu. Ríki íslams hefur þegar lýst yfir ábyrgð á árásinni og birt myndbönd því til sönnunar.

Bortníkov sagði að leyniþjónustan teldi að íslamskir öfgamenn hefðu undirbúið árásina og notið til þess stuðnings frá leyniþjónustum Vesturveldanna og Úkraínu. „Við höfum ekki borið kennsl á þann sem fyrirskipaði árásina,“ sagði Bortníkov og bætti við að FSB vissi hverjir hefðu skipulagt hana og fengið menn til verksins, áður en hann nefndi Bandaríkin, Bretland og Úkraínu sérstaklega.

Bortníkov sagði einnig að hryðjuverkamennirnir fjórir hefðu verið á leiðinni til Úkraínu, þar sem þeim hefði verið fagnað sem hetjum. Ásökun Bortníkovs kom sama dag og Nikolaí Patrúsjev, ritari þjóðaröryggisráðs Rússa, sagði að Úkraína bæri ábyrgðina á verknaðinum en ekki Ríki íslams.

Þá sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, að Volodimír Selenskí væri „sérstök tegund af gyðingi“ sem væri hallur undir öfgaþjóðernisstefnu þegar hann var spurður í gær hvernig Selenskí gæti tengst íslömskum öfgasamtökum. Rússnesk stjórnvöld hafa áður sakað Úkraínumenn um nýnasisma.

Alls hafa 11 manns verið handteknir í tengslum við árásina, og hafa átta þeirra verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, þar á meðal þeir fjórir sem grunaðir eru um að hafa framkvæmt árásina. Eru fjórmenningarnir allir frá Tadsíkistan.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War sagði í stöðumati sínu í gær að Kremlverjar hefðu líklega ákveðið að það væri þess virði að kenna Úkraínumönnum um árásina, á sama tíma og sú ákvörðun gæti þýtt að Rússland yrði berskjaldaðra fyrir frekari árásum íslamista.