[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er allt eins líklegt að þessi pistill muni eldast afskaplega illa því þegar kemur að klæðnaði og stíl hef ég aldeilis ekki efni á að setja mig á háan hest. Eflaust er ég verst klæddi tískuspekúlant sem finna má

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það er allt eins líklegt að þessi pistill muni eldast afskaplega illa því þegar kemur að klæðnaði og stíl hef ég aldeilis ekki efni á að setja mig á háan hest. Eflaust er ég verst klæddi tískuspekúlant sem finna má.

En í ljósi nýlegra frétta af íslenskum smástjörnum og áhrifavöldum þótti mér vissara að nota lífsstílsdálk ViðskiptaMoggans til að rita stutta hugleiðingu um lúxusvarning og merkjavöru. Mér sýnist sumir samlandar mínir nefnilega á rangri leið á sinni tískuvegferð og að þeim hætti til að gera dýr tískumistök sem koma þó ekkert á óvart þegar haft er í huga að Íslendingar eru nýrík þjóð með unga tískumenningu.

Flóknar merkjasendingar

Mér þykir alveg sérstaklega gaman að greina klæðaburð fólks gegnum linsu félagsvísindanna, enda notum við fötin sem við klæðumst til að senda samferðamönnum okkar skilaboð. Við veljum okkur flíkur til að marka okkur stað í goggunarröð þjóðfélagsins; til að falla betur inn í suma hópa og aðgreina okkur frá öðrum hópum; fæla og ögra eða skapa aðdráttarafl og traust. Leikreglurnar eru flóknar og síbreytilegar, og meira að segja þeir sem þykjast ekki gefa leiknum nokkurn gaum komast ekki hjá því að taka þátt (nema kannski Bob Marley sem var svo langt hafinn yfir veraldlega hluti að hann lét oftast duga að reima aðeins annan skóinn sinn).

Minnimáttarkennd leikur stórt hlutverk í því hvernig við klæðum okkur. Við getum notað fatnað til að virðast merkilegri en við erum og jafnvel að við notum fatavalið til að senda sjálfum okkur skilaboð til að sefa djúpstæðar áhyggjur af því hvaða hlutskipti í apahjörðinni við verðskuldum í raun: Allir ættu að þekkja hve góð áhrif það getur haft á viðkvæmt sjálfstraustið að bregða sér í virkilega vel sniðin jakkaföt eða glæsilegan kjól, með dýrt armbandsúr á úlnliðnum eða glitrandi men um hálsinn.

Vandinn er sá að ef ekki er varlega farið skín minnimáttarkenndin í gegn: ef félagslegu merkjasendingarnar verða of augljósar missa þær marks og þeir sem spila leikinn best vita að glæsileiki og fágaður smekkur þarf að líta út fyrir að vera fullkomlega áreynslulaus. Það er með merkjavöruna og tískutilþrifin eins og með hárkollur, andlitslyftingar og brjóstastækkanir, að ef tilraunir fólks til að ganga í augun á öðrum reynast of áberandi þá hefði verið betur heima setið en af stað farið.

Nokkrar góðar reglur

Ég hef sjálfur gengið í gegnum tímabil þar sem mér þótti agalega gaman að klæðast flíkum með áberandi merkjum og skreyta mig með aukahlutum sem mátti sjá langar leiðir að kæmu frá fokdýrum og heimsfrægum tískuhúsum. Vitaskuld sá ég ekki bjálkann í eigin auga, heldur kveikti ég á perunni eitt skiptið þegar ég beið á flugvelli með mínum fyrrverandi og virti fyrir mér hvernig hann hafði klætt sig: Á fótunum voru dýrir strigaskór, skreyttir með stóru letri; bolurinn var rándýr og með nafn fransks tískumerkis ritað stórum stöfum yfir bringuna en bakpokinn stimplaður í bak og fyrir með frægu vörumerki sem allir vita að kostar skildinginn. Hann hafði eytt miklum pening í fötin og vandað sig við valið, en allt sem ég sá var órólegur ungur maður sem vildi ekki að aðrir sæju að hann væri ósjálfstæður og blankur, og kominn skemmra í lífinu en margir jafnaldrar hans.

Þetta varð til þess að ég hóf smám saman að móta mér óformlegar reglur um tísku og klæðaburð, sem eru nokkurn veginn svona:

1. Gott útlit kemur innan frá og allar flíkur eru klæðilegri ef kroppurinn er í ágætu formi, og vitaskuld gætt að því að snyrta húð, hár og neglur. Það bætir líka útgeislunina heilmikið að losa sig við þyngstu andlegu byrðarnar og bera höfuðið hátt. Breitt og einlægt bros trompar allar tískuflíkur.

2. Það er best að láta snið og gæði ráða ferðinni, og hugsa sig tvisvar um áður en fjárfest er í tískuflík með mjög áberandi merkingum. Þá er allt gott í hófi og vissara að klæðast helst ekki meira en einni merkjaflík eða merkjaskarti hverju sinni. Góður smekkur hrópar ekki heldur hvíslar.

3. Útkoman er yfirleitt best ef fólk klæðir sig í samræmi við aldur og líkamsvöxt. Alls ekki bíða með að kaupa föt þar til eftir að aukakílóin eru farin og ekki reyna að virðast yngri með því að klæða þig eins og táningur.

4. Ekki kaupa skartgrip eða flík sem er svo dýr að þig myndi muna um að kaupa hana tvisvar. Það sem við klæðumst á að þjóna hlutverki sínu og ekkert ánægjulegt við það að fara út úr húsi í jakka sem má ekki fyrir nokkra muni blotna, í skóm sem mega alls ekki rispast og með úr sem væri algjör heimsendir að glata.

5. Vandaðu kaupin og hugsaðu vel um innihald fataskápsins. Það getur borgað sig að kaupa dýra hágæðavöru ef hún endist í áraraðir, og skemmtilegra og ódýrara að eiga tvö hágæða skópör í fimm ár en tuttugu léleg pör sem endast í jafnlangan tíma.

6. Ekki vera svo upptekinn af útliti og tísku að ekkert annað komist að. Ef þú ferð til New York og fyllir töskuna af nýjum fötum en ferð ekki á eitt einasta safn eða söngleik þá eru áherslurnar kannski ekki í lagi.

7. Að öllu þessu sögðu þá eru reglurnar til þess gerðar að brjóta þær. En til að brjóta reglurnar þarf maður fyrst að þekkja þær og skilja.

Til gamans læt ég svo fylgja með þessari hugleiðingu nokkra valda muni úr fataskáp og af óskalista blaðamanns á flandri, ef ske kynni að verði lesendum að gagni við valið á næsta glaðningi.