María Björk segist alla tíð hafa verið mikill nörd og haft nördaleg áhugamál.
María Björk segist alla tíð hafa verið mikill nörd og haft nördaleg áhugamál. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Við leggjum mikið upp úr því að mæla árangur í okkar rekstri, fara yfir nýjustu gögn og finna leiðir til að bregðast við þeim. Það er eitt af því sem ég vildi leggja áherslu á þegar ég tók við sem fjármálastjóri

„Við leggjum mikið upp úr því að mæla árangur í okkar rekstri, fara yfir nýjustu gögn og finna leiðir til að bregðast við þeim. Það er eitt af því sem ég vildi leggja áherslu á þegar ég tók við sem fjármálastjóri. Síðari hluti ársins 2023 var krefjandi eins og sást greinilega í uppgjörinu okkar fyrir fjórða ársfjórðung, þrátt fyrir að afkoma ársins í heild hafi verið sú önnur besta í sögu félagsins, en frá því að ég tók við í september árið 2021 höfum við farið í gegnum áhugaverða tíma,“ segir María Björk Einarsdóttir, fjármálastjóri Eimskips.

Á árinu 2023 urðu mikil umskipti í markaðsaðstæðum sem varð til þess að tekjur Eimskips drógust saman um 22% milli ára. Í uppgjöri félagsins fyrir síðasta ár segir að helsta ástæðan fyrir tekjusamdrættinum og verri afkomu en gert var ráð fyrir hafi verið gjörbreyting í flutningsverði yfir Atlantshafið (e. Trans-Atlantic)

„Eins og sést í okkar uppgjöri erum við einfaldlega að vinna í öðrum markaðsaðstæðum en áður. Ég tók við í miðjum heimsfaraldri og það var áhugaverður tími á flutningamörkuðum. Covid hafði mikil áhrif á aðfangakeðjur heimsins og það hafði í för með sér rekstrarlegar áskoranir. Til dæmis var alþjóðlegur gámaskortur og það þurfti að innleiða reglur um sóttkví áhafnarmeðlima. Þetta, ásamt fleiri þáttum, hafði áhrif á flutningsverð en á þessu tímabili hækkaði verð gríðarlega mikið,“ segir María Björk. Hún bætir við að þar sem 50% af veltu Eimskips tengist ekki Íslandi og fyrirtækið keppi á alþjóðlegum markaði hafi slíkt verið meðvindur, þá einkum í kringum áætlanasiglingu yfir Atlantshaf.

Varð framkvæmdastjóri 26 ára

María Björk tók snemma við ábyrgðarhlutverki en hún var einungis 26 ára gömul þegar hún tók við framkvæmdastjórastöðu hjá Ölmu leigufélagi.

„Ég viðurkenni að það var frekar ógnvekjandi.
Þarna bar ég ábyrgð á stórum efnahagsreikningi en ég var sem betur fer með mjög gott teymi með mér og naut góðs af því. Markmið okkar hjá Ölmu var mjög einfalt. Það var að byggja upp flott eignasafn, bæði með kaupum á fasteignum og yfirtökum á minni fasteignafélögum. Síðan ætluðum við að endurfjármagna, taka til á efnahagsreikningnum og loks byggja reksturinn þannig upp að félagið yrði tilbúið til skráningar eða sölu.“

María Björk bætir við að ýmsar hindranir hafi verið á þeirri leið.

„Til að byrja með horfir maður á þetta sem verkefni á sviði sérhæfðra fjárfestinga. Síðan kemst maður að því að það þarf að huga að ýmsu tengdu því að byggja upp innviði, tryggja gæðin í rekstrinum og gera fyrirtækið að eftirsóttum vinnustað. Það var á þessari vegferð sem ég áttaði mig á að þarna lá minn áhugi frekar en að vera í sérhæfðum fjármálatengdum verkefnum. Mín ástríða lá í rekstri, stefnumótun og mannlega þættinum. Þar naut ég mín best,“ segir hún.

Spurð hver hafi verið stærsta áskorunin á ferlinum segir María Björk að hún njóti þess almennt að takast á við þær áskoranir sem felist í rekstri fyrirtækja, en sú áskorun sem henni þótti minnst gaman að takast á við hafi verið krefjandi umræða í kringum íbúðaleigufélög.

„Þegar við unnum að uppbyggingu Ölmu þá voru íbúðaleigufélög tiltölulega ný af nálinni. Umræðan var oft á tíðum ómálefnaleg og við fengum á okkur gagnrýni sem var ekki byggð á staðreyndum. Þetta hafði áhrif á okkur sem stóðum að félaginu. Auðvitað skilur maður að þegar félög koma inn á markaðinn með nýjar hugmyndir að því hvernig gera eigi hlutina þá þurfa þau tíma til að sanna sig en umræðan verður að byggjast á staðreyndum.“

María Björk segir að hún hafi alla tíð verið mikið nörd og haft nördaleg áhugamál.

„Fyrir nokkrum árum ákvað ég að byrja að læra kínversku því ég hef alla tíð verið heilluð af sögu og menningu Kína og hvernig það land náði miklum árangri á skömmum tíma. Ég hef þó ekki náð að sinna því síðustu ár vegna anna og bý því yfir afar takmörkuðum orðaforða, en það er gaman að því að Eimskip er með umfangsmikla starfsemi í Kína með um það bil 100 starfsmenn. Þegar ég heimsótti skrifstofurnar okkar þar á síðasta ári gat maður leyft sér að láta reyna á þá kunnáttu og kollegar mínir þar kunnu að meta það.“

Maríu Björk gekk að eigin sögn vel í raungreinum í skóla. Þegar kom að þeim tímapunkti að velja háskóla var hún líka farin að finna fyrir áhuga á fjármálum og viðskiptum.

„Ég valdi því að fara í rekstrarverkfræði sem var nýtt nám á þeim tíma. Í náminu þótti mér fjármálahlutinn höfða meira til mín. Ég útskrifaðist árið 2012 og ákvað að taka mér pásu áður en ég færi í meistaranám. Það má segja að sú pása sé enn í gangi,“ segir María Björk og hlær.

Hún segir að á þessum tíma hafi ekki verið hlaupið að því að fá vinnu í fjármálageiranum. Hún hafi þó fengið starf í bankaútibúi og í kjölfarið opnaðist spennandi tækifæri á að fara að vinna hjá Gamma, sem þá var ungt fjármálafyrirtæki en átti eftir að stækka.

„Þar fékk maður tækifæri að byggja eitthvað upp og ég lærði mjög mikið á því," segir hún þegar hún rifjar þennan tíma upp.

Vildi setja fókus á sjóðstreymið

María Björk hafði nýlokið við að það að leiða Ölmu í gegnum söluferli þar sem félagið var yfirtekið af Langasjó og í fæðingarorlofi þegar hún fékk símtal þar sem henni var boðið að koma í starfsviðtal fyrir fjármálastjórastöðu Eimskips. Hún segir að þetta hafi verið mjög rökréttur tímapunktur í lífi sínu og starfsferli til að gera breytingar. Hún hafi því ekki þurft að hugsa sig lengi um að mæta í viðtalið.

„Þegar ég kynntist betur þeirri vegferð sem nýir stjórnendur hjá Eimskip voru á fann ég mikinn samhljóm með hvernig ég horfði á reksturinn og stefnumótunina. Þegar tækifærið bauðst að verða fjármálastjóri Eimskips þá samþykkti ég það án þess að hika.“

Komstu með nýjar áherslur inn á fjármálasvið félagsins?

„Já klárlega. Þegar ég tók við þá voru komnir inn nýir fjárfestar í fyrirtækið og nýr forstjóri. Maður sá að það var búið að leggja línur í rekstrinum og einblínt á að auka heilbrigða afkomu í kjarnarekstri fyrirtækisins því það hafði verið langt tímabil þar sem afkoman af þeim rekstrarþætti var óviðunandi. Þær áherslur féllu vel að minni sýn og ég sá tækifæri á að styðja við þá vegferð. Ég vildi einblína á að gera fjármálasviðið í stakk búið til að þjónusta reksturinn enn betur. Leggja áherslu á að flýta uppgjörum, hafa stöðugt eftirlit með fjárhagstölum og rekstrarmælikvörðum og greina reksturinn í rauntíma. Við erum byrjuð að horfa meira fram á við og nýta gögnin til að taka réttar ákvarðanir í rekstrinum,“ segir María Björk og bætir við að hún hafi viljað horfa meira á sjóðstreymið.

„Ég vildi setja fókusinn á sjóðstreymið í rekstrinum, hingað til hafði fókusinn meira verið á rekstrarreikninginn. Sjóðstreymið er mikilvægt fyrir öll fyrirtæki og við vildum leggja áherslu á það. Þar höfum við til dæmis sett mjög skýran ramma í kringum fjárfestingar og innleitt virka veltufjárstýringu. Það hefur gríðarlega mikil áhrif þegar þú ert með samstæðu sem veltir svo miklu. Við vildum líka breyta því hvernig við samræmum ferla og vinnum með erlendu fyrirtækjunum okkar. Það hefur þegar verið lyft grettistaki í þeim efnum og við höfum lagt áherslu á alþjóðlega samvinnu, myndað þverfagleg teymi og slíkt. Við erum sterkari sem heild.“

Stórt verkefni í Færeyjum

María Björk segir að Eimskip sé sífellt að fjárfesta í rekstrinum samkvæmt vel skilgreindum fjárfestingarætlunum, enda sé fjárfestingarfrekt að halda uppi öllum þeim innviðum sem starfsemin byggist á.

„Hvað varðar nýfjárfestingar þá erum við með eitt stórt verkefni í Færeyjum. Þar erum við að þróa okkar aðstöðu. Við erum að byggja stórt vöruhús og nýja frystigeymslu í Þórshöfn ásamt nýjum höfuðstöðvum. Við tókum við nýjustu skipunum okkar árið 2020. Við erum með skip í flotanum sem eru að komast á aldur þannig að það er á sjóndeildarhringnum að fara í nýsmíðar á skipum. Þar liggja fyrir stórar ákvarðanir sem tengjast orkuskiptunum. Á mjög skömmum tíma hefur hlutfall skipa í pantanabókunum í skipasmíðastöðvum heimsins farið úr að vera nánast alfarið skip sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti yfir í að vera að stórum hluta skip sem bjóða upp á þann kost að ganga fyrir öðrum orkugjöfum. Við höfum meðal annars horft til Maersk sem eru að smíða metanólskip og munum á næstu misserum kynna okkar fyrirætlanir í nýsmíðum. En það er ljóst að við verðum að taka djörf skref.“

Nú er lögð sífellt meiri áhersla á sjálfbærni hjá fyrirtækjum. Eru þær kröfur of íþyngjandi eða eru þær nauðsynlegar að þínu mati?

„Þetta er auðvitað flókið og mismunandi kröfur hafa misjöfn áhrif. Við höfum staðið framarlega í sjálfbærnimálum og erum stolt af því. Hins vegar finnst okkur hagsmuna Íslands ekki alltaf vera nógu vel gætt, til dæmis þegar skipaflutningar voru innleiddir inn í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir sem tók gildi um áramótin. Við erum lítið eyríki og höfum ekki kost á að nýta lestarsamgöngur, fljótabáta eða landflutninga milli landa. Við hefðum viljað að stjórnvöld hefðu beitt sér fyrir einhvers konar undanþágum fyrir Ísland til að jafna leikinn gagnvart þeim þjóðum sem eru á meginlandinu og hafa því úr fjölbreyttari flutningsmátum að velja.“

María Björk segir ljóst að kostnaðurinn á bak við auknar kröfur skerði samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins og þótt flestir séu sammála um að sjálfbærni sé orðin óaðskiljanlegur hluti af rekstri fyrirtækja þá sé auðvelt að setja spurningarmerki við allar nýju reglugerðirnar og kröfurnar.

„Það má spyrja sig hvort við á Íslandi séum að ganga of langt með þessari gullhúðun sem svo mikið er talað um. Eimskip er stórt fyrirtæki sem ræður vel við þær kröfur sem settar eru. Mörg af þeim íslensku fyrirtækjum sem falla undir t.d. flokkunarreglugerð Evrópusambandsins teljast til dæmis örfyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða þótt þau flokkist sem stór fyrirtæki á Íslandi. Þess vegna ætti að aðlaga þessar reglur sem settar eru að okkur.“

Þurftu að leggja áherslu á kostnaðarhliðina

Aðstæður í efnahagsumhverfinu hafa verið krefjandi á undanförnum misserum. Hvernig hefur ykkur gengið að bregðast við?

„Það hefur þurft gríðarlega mikla athygli og við höfum þurft að setja gríðarlegan fókus á kostnaðarhliðina. Þegar við sjáum markaðsaðstæður breytast þurfum við að bregðast við því. Í upphafi síðasta árs hófum við að breyta siglingakerfinu í því skyni að draga úr olíunotkun og lækka kostnað en náðum ekki að innleiða breytingarnar að fullu fyrr en í mars á þessu ári. Það tekur oft langan tíma að innleiða slík verkefni en þetta var verkefni sem var nauðsynlegt að ráðast í,“ segir María Björk.

Hún bætir við að á síðustu árum hafi Eimskip lagt áherslu á tæknileg umbreytingarverkefni sem hafi gert félaginu kleift að hagræða í rekstrinum. Það hafi gert Eimskip samkeppnishæfara og betur í stakk búið til að bregðast við breytingum í efnahagsumhverfinu.

María Björk segir að eins og svo mörg fyrirtæki finni Eimskip fyrir því að launakostnaðurinn sé orðinn meira íþyngjandi en áður. Hjá Eimskip starfa um 900 af 1.700 starfmönnum samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

„Maður hefur séð mikinn mun á því hvernig launakostnaður eykst á Íslandi samanborið við okkar alþjóðlegu starfsemi, einkum í skammtímasamningum sem gerðir voru fyrir ári. Það voru virkilega dýrir samningar og fyrir samning sem gilti í eitt ár var þetta þungt. Það kemur mér ekki á óvart að það heyrist í atvinnulífinu að launahækkanirnar hafi verið að bíta.“

Hún segir að hún hafi þó verið ánægð með lendinguna í nýundirrituðum kjarasamningum. Þrátt fyrir að um sé að ræða miklar hækkanir megi ekki horfa fram hjá því að verðbólgan sé mikil. Því verði raunlækkun á fyrri hluta samningstímabilsins miðað við núverandi stöðu.

„Ég held að það séu allir sammála því að það skipti máli hver nálgunin er og nú sé kominn samhljómur um að gera samninga sem byggjast á verðstöðugleika og gera samninga til lengri tíma.“

Nú hefur Seðlabankinn lýst áhyggjum af nýundirrituðum kjarasamningum og bent á að enn eigi eftir að semja við hluta af vinnumarkaðnum, til dæmis hið opinbera. Skilurðu þær áhyggjur?

„Auðvitað skilur maður það þegar hið opinbera er að dæla tugum milljarða út í hagkerfið. Þá eru áhyggjur og það er rétt að enn á eftir að semja við stóran hluta vinnumarkaðarins. Maður verður að hafa trú á að allir spili saman því annars missa samningarnir marks.“

Laxeldið vaxtarbroddur

Hún bætir við að Ísland ætti að horfa til Norðurlandanna hvað varðar vinnumarkaðsmódel sem gæti stuðlað að meira jafnvægi í hagkerfinu.

„Við erum of lengi búin að glíma við óheilbrigt vinnumarkaðsmódel sem er afleiðing þess að íslenska hagkerfið var mjög einsleitt en við erum í annarri stöðu núna. Það er einnig mikilvægt, ef við eigum að vinna bug á þessari verðbólgu, að atvinnurekendur komi í veg fyrir launaskrið sem við höfum svo oft séð fylgja í kjölfar kjarasamninganna. Launaskrið hefur sömu áhrif og óhóflegir kjarasamningar.“

María Björk segir að flutningageirinn þróist mjög hratt og vöruframboðið sé stöðugt að vaxa með tilliti til ferskvara.

„Í innflutningnum höfum við verið að aðlaga kerfið þeim sem flytja inn fersk matvæli, til að mynda ávexti og grænmeti, sem vilja fá vörurnar fyrr og á réttum tíma til að uppfylla þarfir viðskiptavina. Hvað varðar útflutninginn erum við að horfa til laxeldisins sem mikils vaxtarbrodds. Við viljum þróast þótt við séum að ganga í gegnum tímabil þar sem mótvindur ríkir. Við verðum að vera fókuseruð og aldrei missa sjónar á boltanum,“ segir María Björk að lokum.

Samkeppnin sífellt meiri

María Björk segir að samkeppnin í flutningageiranum sé mikil og verði sífellt meiri. Um þessar mundir eru fimm félög með reglulegar áætlanasiglingar til Íslands í hverri viku og það sama er upp á teningnum í Færeyjum og Noregi þar sem Eimskip er einnig með reglulegar siglingar og samkeppnin er hörð.

„Við störfum í 20 löndum og á mismunandi mörkuðum og flutningageirinn heilt yfir er gríðarlega dýnamískur en virkilega sveiflukenndur. Gagnstætt því sem stundum hefur verið haldið fram þá ríkir mikil samkeppni á flutningamörkuðum. Við viljum starfa í umhverfi þar sem er virk samkeppni og við þurfum að vera á tánum til þess að veita okkar viðskiptavinum góða þjónustu á hagstæðu verði.“

María Björk bætir við að fimm skipafélög séu með reglulegar áætlunarsiglingar til Íslands.

„Það er mjög mikið fyrir litla þjóð og frábær þjónusta fyrir inn- og útflutningsaðila. Til viðbótar erum við með marga aðila sem stunda stórflutninga með olíu og aðrar hrávörur og einnig er gott framboð af fraktflugi sem hefur farið vaxandi og eykur valmöguleika þeirra sem flytja vörur milli landa,“ segir María Björk.