Andrés Kristinsson fæddist í Reykjavík 17. mars 1939. Hann lést 15. mars 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Kristinn Andrésson málarameistari, f. 3.2. 1893, d. 5.2. 1960, og Margrét Guðmundsdóttir f. 14.11. 1909, d. 10.10. 2001.

Systir Andrésar er Elín, f. 9.3. 1934.

Andrés giftist Sigrúnu Eyjólfsdóttur, f. 9.7. 1941, d. 22.2. 2022. Voru þau gift í 25 ár.

Börn Andrésar og Sigrúnar eru: 1) Birgir, f. 23.4. 1959, d. 13.12. 2008. Börn hans eru Matthildur Dröfn og Eyjólfur Einar. 2) Kristín, f. 6.12. 1960. Sonur hennar er Andrés Magnús Vilhjálmsson. 3) Elín, f. 13.8. 1966, gift Pétri Jónssyni Dam, f. 4.9. 1963. Börn þeirra eru Aðalheiður Sigrún, Lena Björk og Pétur Andri.

Andrés lauk gagnfræðaprófi frá Austurbæjarskóla.

Hann var verslunarmaður.

Útför Andrésar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 27. mars 2024, klukkan 13.

Það kom mér ekki á óvart, og þó, því það er nú einu sinni þannig að maður er einhvern veginn aldrei viðbúinn dauðanum, þegar Kristín dóttir Andrésar hringdi til mín á föstudagsmorgni og lét mig vita að hann hefði látist þá um nóttina.

Við kynntumst árið 1965, báðir að selja á ferð um landið. Hann hringdi svo til mín vorið 1969 og sagðist vera með land í Skorradal undir sumarhús og spurði hvort ég væri til í að taka eina lóð á fallegum stað. Eftir nokkrar samræður sagði ég já. Þetta voru fyrstu kynni mín af Andrési og hefur aldrei borið skugga á þá vináttu síðan.

Við fluttum báðir skúra sem voru fokheldir og settum á lóðirnar. Farið var svo að innrétta og gera þetta að sumarhúsum sem voru svo stækkuð eftir þörfum. Við komum á rennandi vatni, rafmagni, hitavatnskerfi og gróðursettum tré á lóðunum. Það eru ógleymanlegar stundir þegar við vorum að brasa í þessu.

Við hjálpuðumst að við þetta allt saman og grilluðum svo saman fjölskyldurnar á kvöldin ásamt nágrönnum okkar Óla og Ingu. Þessar fjölskyldur voru og vonandi verða í framtíðinni eins og ein fjölskylda enda var alltaf talað um þessa þrjá bústaði sem eina fjölskyldu. Stígurinn á milli bústaðanna náði aldrei að gróa. Það er margt sem kemur upp í hugann þegar farið er að rifja upp stundirnar í Skorradalnum. Það var fjör þegar skroppið var í sund í Hreppslaugina fyrstu árin.

Farið var með vindsæng og fleira dót sem unga fólkið lék sér með eða þegar rennt var fyrir silung í vatninu. Oft var farið um páska í Skorradalinn í misjöfnu veðri og kom fyrir að sum húsin væru nærri því á kafi í snjó og færðin eftir því.

Andrés lék í mörg ár golf bæði hér heima og erlendis með vinkonu sinni Lollý meðan heilsan leyfði en bakvandamál gerði honum lífið leitt.

Andrés var góður vinur okkar allra og ef einhver þurfti á liðsinni eða einhverju að halda var enginn betri en Andrés að leita til. Hann hugsaði vel um sína fjölskyldu og sá til þess að hún hefði allt til alls. Við fjölskyldan erum þakklát fyrir að hafa fengið þau forréttindi að vera samferða honum á lífsleiðinni og fá að njóta allra samverustundanna með honum í Skorradalnum.

Stínu, Ellu og fjölskyldum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Andrésar.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir,

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(BJ)

Klemenz og
fjölskylda.