Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði Íslands, var niðurlútur eftir tapið í gærkvöldi. „Það er ansi erfitt að kyngja þessu, sérstaklega þegar við vorum komnir 1:0 yfir og vorum yfir í hálfleik. Þá eru 45 mínútur eftir og við fáum á okkur léleg mörk

Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði Íslands, var niðurlútur eftir tapið í gærkvöldi.

„Það er ansi erfitt að kyngja þessu, sérstaklega þegar við vorum komnir 1:0 yfir og vorum yfir í hálfleik. Þá eru 45 mínútur eftir og við fáum á okkur léleg mörk. Við föllum ansi aftarlega á völlinn og reynum auðvitað að verjast.

Svo höldum við ekki nógu vel í boltann heldur og það er auðvitað erfitt að halda þannig út í 90 mínútur. Það er samt grátlegt þegar maður er svona nálægt þessu,“ sagði Jóhann í samtali við Morgunblaðið eftir leik.

Annað Evrópumótið í röð situr Ísland eftir með sárt ennið eftir sárgrætileg töp í umspilsleikjum um laust sæti á mótinu. Ísland tapaði 2:1 fyrir Ungverjalandi í nóvember 2020 fyrir EM árið 2021.

„Já, við vorum komnir 1:0 yfir í báðum leikjum og ansi stutt frá þessu. Það er gríðarlega erfitt að taka þessu en svona er fótboltinn og það er bara næsta mót,“ bætti Jóhann við.

„Við ætluðum okkur alltaf á EM en það hafðist ekki í dag,“ sagði varnarmaðurinn Daníel Leó Grétarsson. „Þeir voru ekki að skapa mikið af færum og við vorum að vinna varnarvinnuna vel. Kannski föllum við of aftarlega og vorum óheppnir. Þetta er einn stærsti leikur sem maður hefur spilað á ferlinum og það er erfitt að taka þessu,“ bætti Daníel við.

Viðtölin í heild sinni og fleiri viðtöl má nálgast á mbl.is/sport.