Við Smáralind Seldar hafa verið íbúðir í Smárabyggð fyrir milljarða í ár.
Við Smáralind Seldar hafa verið íbúðir í Smárabyggð fyrir milljarða í ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Þorvaldur Gissurarson, forstjóri og eigandi ÞG Verks, segir sölu fyrirtækisins á nýjum íbúðum hafa verið umfram væntingar undanfarna mánuði. Því verði nýjum verkefnum flýtt.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri og eigandi ÞG Verks, segir sölu fyrirtækisins á nýjum íbúðum hafa verið umfram væntingar undanfarna mánuði. Því verði nýjum verkefnum flýtt.

„Við erum að fara að keyra í gang ný verkefni á allra næstu vikum. Við erum svolítið að blása í glæðurnar með því að setja töluvert mikið í gang af nýjum íbúðaverkefnum. Áætlanir okkar gerðu ráð fyrir mun hægari sölu. Íbúðirnar hafa hins vegar selst hraðar og meira en við gerðum ráð fyrir,“ segir Þorvaldur og vísar til síðustu níu mánaða. Á því tímabili hefur ÞG Verk selt ríflega 200 íbúðir, þar af 104 frá áramótum, en fyrirtækið er meðal annars með nýjar íbúðir í sölu í Vogabyggð í Reykjavík, Smárabyggð í Kópavogi og í Urriðaholti í Garðabæ.

Gríðarlega mikil sala

„Sérstaklega hefur salan síðustu 3-4 mánuði gengið mun betur og verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Við höfum selt gríðarlega mikið og erum því að setja í gang ný verkefni sem annars hefðu beðið. Þegar er hafin uppbygging við Urriðaholtsstræti í Garðabæ og Baughamar í Hafnarfirði. Auk þess eru tvö stór verkefni langt komin í hönnun. Annars vegar í Garðabæ þar sem framkvæmdir eru þegar hafnar og hins vegar í Reykjavík þar sem við vonumst til að geta hafist handa innan fárra vikna.“

Hvað skýrir að salan sé umfram væntingar?

„Grindavík. Ég held að það sé meginástæðan, en líka að markaðurinn reiknar með verðhækkunum þegar fram í sækir. Það ástand sem skapaðist í kjölfar atburðanna í Grindavík skapaði eftirspurn og söluþrýsting sem aftur hefur áhrif á aðra sem eru í kauphugleiðingum, það hefur viss hliðaráhrif. Auk þess hefur það örvað og stutt við söluna að boðið hefur verið upp á hlutdeildarlán.“

Þannig að einhverjar af minni íbúðunum hafa verið keyptar með hlutdeildarláni?

„Já.“

Áhrif hlutdeildarlána

Ef við tökum Grindvíkinga og hlutdeildarlán út fyrir sviga er þá einkum vel stætt fólk að kaupa nýjar íbúðir?

„Já. Það er ákveðinn hópur sem fellur undir hlutdeildarlánafyrirkomulagið og svo eru einstaklingar sem eru kannski heldur efnameiri að kaupa íbúðir,“ segir Þorvaldur.

Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, segir vísbendingar um aukin umsvif á fasteignamarkaði. Það birtist meðal annars í nýrri mælingu á vísitölu íbúðaverðs en hún vitni um hækkandi fasteignaverð á landsbyggðinni.

„Verð á fjölbýli á landsbyggðinni hækkaði um 6,4% milli mánaða og 12 mánaða hækkunin er 8,5%. Þá hækkaði verð á sérbýli á landsbyggðinni um 1,4% milli mánaða og 12 mánaða hækkunin var 4,2%.

Þessar tvær vísitölur eru sveiflukenndar og vegna þess að fasteignamarkaðurinn er sveiflukenndur ganga þessar sveiflur stundum til baka. Þetta eru samt það miklar verðhækkanir að fullyrða má að þær séu vísbendingar um aukinn þrýsting á fasteignamarkaði,“ segir Jónas Atli.

Skýrist eftir nokkrar vikur

Spurður hvað ráða megi úr kaupsamningum segir hann veltu á fasteignamarkaði hafa aukist nokkuð í febrúar. Það skýrist hins vegar ekki fyrr en eftir nokkrar vikur hver gangurinn var á markaðnum í mars, eftir undirritun kjarasamninga.

Kristján Baldursson, löggiltur fasteignasali hjá Trausta fasteignasölu, segir hafa lifnað yfir fasteignamarkaði á árinu. Þá sérstaklega eftir undirritun kjarasamninga í byrjun mars.

Hann segir töluvert um að Grindvíkingar séu að festa sér fasteignir. Þar með talið í Þorlákshöfn, á Selfossi, í úthverfum Reykjavíkur, í Mosfellsbæ og á Akranesi.

„Grindvíkingar eru að koma á markaðinn með ríkistryggða fjármögnun. Það er marktækur munur á sölu hjá okkur eftir að kjarasamningar voru gerðir og staðan skýrðist hjá Grindvíkingum,“ segir Kristján.