Glæpagengi hafa tekið völdin á Haítí

Á Haítí ræður glundroðinn ríkjum. Glæpagengi fara með völd í stórum hluta landsins og ráða yfir mestallri höfuðborginni, Port-au-Prince, og stjórn landsins er í uppnámi. Forsætisráðherra landsins hefur sagt af sér og pólitískir leiðtogar ná engu samkomulagi.

Ástandið á Haítí hefur aldrei verið gott, en á þessu ári hefur keyrt um þverbak. Gengin, sem þrífast á mannránum, fjárkúgunum, smygli og eiturlyfjum, eru aðgangsharðari en nokkru sinni og eira engu. Í upphafi þessa mánaðar gerðu gengi undir forustu fyrrverandi lögreglumanns að nafni Jimmy Chérizier atlögu að tveimur stærstu fangelsum landsins og leystu úr haldi fjögur þúsund manns. Chérizier, sem gengur undir nafninu Barbecue, réðst einnig á flugvellina í Port-au-Prince með mönnum sínum. Skutu þeir á flugvélar, öryggisverði og lögreglu. Hótaði hann að hleypa af stað borgarastyrjöld segði Ariel Henry, forsætisráðherra landsins, ekki af sér.

Henry gerði það reyndar, en spyrja má hvort styrjaldarástand ríki ekki þegar í landinu.

Staðan er þannig að enginn getur farið um óhultur. Ráðist er á almenna borgara og þeir drepnir af handahófi. Úti um allt liggja lík. Nauðganir og kynferðisofbeldi er daglegt brauð. Fólki er rænt á götum úti og lausnargjalds krafist. Gengin hrekja fólk út af heimilum sínum og leggja þau undir sig. Um helgina var ástandið orðið þannig í höfuðborginni að fólk byrjaði að flýja hana tugþúsundum saman.

Helmingur þjóðarinnar hefur liðið matarskort frá árinu 2020 og talið er að milljón manna sé á mörkum hungursneyðar.

Henry var gerður að forsætisráðherra í tíð Jovenels Moïses forseta skömmu áður en sá síðarnefndi var ráðinn af dögum 2021. Henry hafði ítrekað frestað kosningum og borið við að ekki væri hægt að ganga að kjörborðinu við þær aðstæður sem væru í landinu.

Ofbeldi hefur fylgt Haítí og pólitískir leiðtogar hafa iðulega ráðið yfir eigin sveitum til að tryggja sig í sessi. Má þar nefna feðgana Francois Duvalier og Jean-Paul Duvalier, Papa Doc og Baby Doc, sem fóru með völdin frá 1957 til 1986. Steininn tók úr þegar Jean-Bertrand Aristide lagði her landsins niður árið 1995 þar sem hann óttaðist að hann myndi steypa sér af stóli. Aristide var með sínar eigin sveitir, sem við þetta óx fiskur um hrygg.

Nú ræður enginn við gengin. Aðeins eru nokkur þúsund manns í lögreglunni, en margfalt fleiri eru í gengjunum. Herinn var reyndar stofnaður að nýju 2017, en í honum eru aðeins nokkur hundruð manns.

Til athugunar hefur verið að senda friðargæsluliða frá Kenía, en ekki hefur orðið af því og ólíklegt að þeir hefðu roð við gengjunum.

Saga Haítí hefur einkennst af hörmungum. Haítí var annað landið til að brjótast undan oki gamla heimsins á eftir Bandaríkjunum. Þaðan kom þó enginn stuðningur því að íbúar Haítí voru um leið að leysa sig undan þrælahaldi Frakka og Bandaríkjamenn óttuðust að sú barátta gæti orðið þrælum í Bandaríkjunum innblástur.

Frakkar sáu til þess að Haítí var einangrað í viðskiptum og það var ekki fyrr en uppreisnarleiðtogarnir féllust á að greiða Frökkum „skaðabætur“, þar á meðal fyrir að hafa misst þrælana sína, að slakað var á klónni. Afborganirnar til Frakka voru sligandi og það ótrúlega er að þeim linnti ekki fyrr en upp úr miðri 20. öldinni, löngu eftir að þrælahald var aflagt. Er sú saga Frökkum til lítils sóma.

Í landinu ríkir stjórnleysi og engar einfaldar lausnir eru á því hvernig eigi að reisa það við á ný. Stjórnmálamenn og frammámenn í viðskiptalífi hafa nýtt sér gengin sér til framdráttar og eiga sök á því hvað þau eru orðin valdamikil. Fyrsta skrefið gæti verið að styrkja lögreglu og þær öryggissveitir sem fyrir eru. Þær vörðust hetjulega á flugvellinum í upphafi mánaðar. Við íbúum Haítí blasir víti og við það verður ekki búið.