Landeyjahöfn Til skoðunar er að færa ós Markarfljóts 2-4 km frá höfninni.
Landeyjahöfn Til skoðunar er að færa ós Markarfljóts 2-4 km frá höfninni. — Morgunblaðið/RAX
Hugmyndir eru uppi innan Vegagerðarinnar um að færa ós Markarfljóts um tvo til fjóra kílómetra frá Landeyjahöfn til austurs til að minnka sandburð úr fljótinu í höfnina. Þetta kom fram á íbúafundinum sem haldinn var um samgöngumál Vestmannaeyjum fyrr í þessum mánuði

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Hugmyndir eru uppi innan Vegagerðarinnar um að færa ós Markarfljóts um tvo til fjóra kílómetra frá Landeyjahöfn til austurs til að minnka sandburð úr fljótinu í höfnina. Þetta kom fram á íbúafundinum sem haldinn var um samgöngumál Vestmannaeyjum fyrr í þessum mánuði. Ef ráðist yrði í framkvæmdir við að færa farveg Markarfljóts yrði það gert með því að reisa leiðigarð, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Fannar Gíslason, forstöðumaður hafnadeildar Vegagerðarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið að þessi framkvæmd sé enn á hugmyndastigi og engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort ráðist verði í hana en að málið verði kannað frekar og þá hæfust rannsóknir í framhaldinu.

Hugmyndir um að færa farveg Markarfljóts til að draga úr aurburðinum úr fljótinu sem fer í vestur að höfninni og bæta aðstæður í Landeyjahöfn eru ekki nýjar af nálinni. Fyrir rúmum áratug lagði danska straumfræðistofnuninn DHI til að ós fljótsins yrði færður til austurs um 2,5 km.

Fannar bendir á að á nokkurra ára fresti séu austlægar áttir ríkjandi eins og verið hafi í vetur og þá berist sandurinn frá Markarfljóti til Landeyjahafnar í miklu meiri mæli en venjulega. „Þegar það er suðvestanalda þá er þetta ekki jafn afgerandi. Það er mikill munur á opnunartímum í Landeyjahöfn á þessu ári og á þremur undanförnum árum,“ segir hann.

Gæti kostað um 600 milljónir

„Við erum bara að fara að skoða hvernig við getum útfært þetta en það er ekkert sjálfgefið að þetta verði að veruleika. Það þarf m.a. að ræða við landeigendur,“ segir hann og bendir á að ef ráðist yrði í gerð leiðigarðs sem ber strauminn til austurs hafi það áhrif á jarðir sem þarna eru og fara þyrfti í einhverjar forvarnaraðgerðir til að koma í veg fyrir frekara rof á þeim. Undirbúningur vegna þess myndi þá taka nokkur ár.

Að sögn Fannars er gróflega áætlað að kostnaður við að færa farveg fljótsins geti verið í kringum 600 milljónir króna. Ef rannsóknir leiði í ljós að þetta sé ákjósanlegt og öll leyfi lægju fyrir þá ætti sjálf framkvæmdin ekki að taka nema um það bil eitt ár.

Höf.: Ómar Friðriksson