Glæður „Ekki var annað að sjá en að leikararnir væru að reyna að gera sitt ýtrasta til að blása lífi í glæður vísindaskáldskapar McDowalls,“ segir í rýni um X. Meðal leikara eru Sólveig Arnarsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson.
Glæður „Ekki var annað að sjá en að leikararnir væru að reyna að gera sitt ýtrasta til að blása lífi í glæður vísindaskáldskapar McDowalls,“ segir í rýni um X. Meðal leikara eru Sólveig Arnarsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson. — Ljósmynd/Hörður Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið X ★★½·· Eftir Alistair McDowall. Íslensk þýðing: Jón Atli Jónasson. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Lýsing: Fjölnir Gíslason. Tónlist og hljóðmynd: Þorbjörn Steingrímsson. Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir. Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Björn Stefánsson, Kría Valgerður Vignisdóttir, Sólveig Arnarsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins laugardaginn 16. mars 2024.

Leiklist

Silja Björk

Huldudóttir

X nefnist spennuleikrit eða sálfræðitryllir eftir breska leikskáldið Alistair McDowall sem Borgarleikhúsið frumsýndi nýverið í íslenskri þýðingu Jóns Atla Jónassonar. Leikurinn, sem hæglega má skilgreina sem vísindaskáldskap, gerist í framtíðinni um borð í rannsóknargeimstöð við endimörk sólkerfisins. Þar bíður hópur geimfara eftir að vera sóttur og komast heim til jarðar, en enginn kemur og engar skýringar fást þar sem sambandið við stjórnstöðina á jörðinni rofnaði fyrir nokkru og þögnin ein ríkir. Þó geimstöðin sé á Plútó, þar sem sólarhringurinn er 153 tímar, tifar stafræn klukkan á jarðartíma á skjá fyrir miðju sviði. Ef ekkert væri úrið myndu geimfararnir fljótt missa tengslin við tímann, þar sem eilíft myrkur blasir við út um gluggann og engin leið er að mæla daga, vikur, mánuði eða ár.

McDowall notar þá velþekktu formúlu í þessari dystópíu sinni að loka tiltekinn hóp einstaklinga inni í afmörkuðu rými. Hann sviptir þau allri von og tímaskynjun og fljótlega fara furðulegir og jafnvel hryllilegir hlutir að gerast þar sem geimfararnir týna tölunni hver af öðrum. Eftir hlé virðist tíma- jafnt sem veruleikaskyn persóna fyrir alvöru leysast upp og áhafnarmeðlimirnir Gilda (Sólveig Arnarsdóttir) og Clark (Björn Stefánsson) missa jafnvel tökin á tungumálinu, en fyrir hlé birtist stærsta tímastökkið í því að seinasta atriðið fyrir hlé gerist strax eftir upphafssamtal kafteinsins Rays (Bergur Þór Ingólfsson) og vísindakonunnar Gildu (Sólveig Arnarsdóttir). Áhorfendur þurfa því að hafa sig alla við til að lesa í aðstæður og reyna að púsla saman réttri tímaröð verksins til að halda þræði. Ekki hjálpar síðan til að óljóst er hvort sumar persónur verksins eru í raun og veru til eða einfaldlega sameiginleg skynvilla áhafnarmeðlima. Inn í þetta blandast síðan hrollvekjandi senur sem virðast á mörkum veruleika og ímyndunar, en í þeim senum gegnir ung stúlka (Kría Valgerður Vignisdóttir) lykilhlutverki. Til að spilla ekki upplifun áhorfenda er síðan best að hafa sem fæst orð um hlutverk Mattie (Þórunn Arna Kristjánsdóttir), enda hægt að túlka veru hennar á geimstöðinni með ýmsum hætti án þess að leikritið sjálft bjóði upp á endanlega niðurstöðu.

Í upphafi verks fáum við þær upplýsingar að hópurinn hafi þegar dvalið saman á Plútó í 18 mánuði. Þau hafa greinilega yfirgefið jörð þar sem þau sem geta koma sér upp sprengjubyrgi og öll tré eru útdauð sem og fuglar. Það virðist því ekki hafa verið mjög lífvænlegur heimur sem hópurinn kvaddi þegar hann hélt út í geim, sem kallast á við brýnasta málefni samtímans: hamfarahlýnunina sem þjóðir heims ætla seint að bregðast við af fullri alvöru. Á sama tíma kallast innilokunin og áhrif hennar á manneskjur á við nýlegan heimsfaraldur með tilheyrandi einangrun og samkomutakmörkunum, en raunar var leikritið upphaflega frumsýnt í Royal Court í London vorið 2016 – við blendnar viðtökur gagnrýnenda sem virtust margir sammála um að fyrri leikrit höfundar hefðu boðið upp á safaríkari efnivið.

Höfundur keyrir spennuna í X áfram með því að miðla eins litlum upplýsingum og hægt er. Fyrir vikið verða persónurnar bæði einsleitar og flatar. Þó ljóst sé að þær hafi mjög ólíkra persónulegra hagsmuna að gæta, sér þess varla stað í samskiptum og framvindu. Sem dæmi virðist Ray beinlínis hafa hag af því að snúa ekki heim til jarðar, enda bíður hans þar ekkert annað en niðurdrepandi starfslok sökum aldurs. Cole (Sveinn Ólafur Gunnarsson) virðist vera eini geimfarinn sem á barn sem bíður heimkomu hans meðan Gilda virðist hafa verið einstæðingur á jörðinni og lítið fáum við að vita um persónulegar aðstæður Clarks. Sökum þessa er leikhópnum undir stjórn Unu Þorleifsdóttur allnokkur vandi á höndum við að gæða efniviðinn lífi.

Augljóst er að mikil vinna hefur verið lögð í alla ytri umgjörð sýningarinnar, hvort heldur það snýr að góðri leikmynd og búningum Sigríðar Sunnu Reynisdóttur, úthugsaðri lýsingu Fjölnis Gíslasonar, þénugri tónlist og hljóðmynd Þorbjörns Steingrímssonar eða stórgóðum leikgervum Guðbjargar Ívarsdóttur. Á sviðinu birtist grátóna geimstöðin með hentugum húsgögnum, tölvubúnaði og stórum glugga með engu sjáanlegu útsýni, enda allt svart utan við rýmið. Lýsingin er notuð til að magna upp stemningu þar sem fjólubláir og rauðir tónar eru notaðir með góðum hætti auk þess sem blikkljósum er óspart beitt til stemningsauka. Augljóst er að nostrað hefur verið við áferð og útfærslu einkennisbúninga áhafnarinnar þar sem blái og hvíti liturinn ráða ríkjum. Hljóðmyndin er, líkt og lýsingin, ágeng og greinilega ætlað að skapa tilætluð hughrif og magna þau augnablik þar sem reynt er að bregða leikhúsgestum. En óneitanlega læddist að þessum áhorfanda sá grunur að verið væri að keyra upp stemninguna með utanáliggjandi meðölum til að breiða yfir rýrt innihaldið. Með sama hætti væri með háu spennustigi í leikhópnum strax frá fyrstu stundu verið að bæta fyrir skort á innri spennu í verkinu sjálfu. Ekki var annað að sjá en að leikararnir væru að reyna að gera sitt ýtrasta til að blása lífi í glæður vísindaskáldskapar McDowalls, en þó hæglega megi slátra frábærum efnivið með kunnáttu- eða metnaðarleysi þá getur framúrskarandi listafólk því miður ekki bjargað slöku hráefni.

Heimspekilegar vangaveltur um ábyrgð foreldra gagnvart afkvæmum sínum og spurningin um það hvort barneignir séu í eðli sínu ávallt sjálfselskar fór fyrir lítið í melódramatísku niðurlagi. Þó verkið beini sjónum sínum að hnattrænni hlýnun, stéttaskiptingu, breyskleika manneskjunnar, vinnusiðferði, nauðsyn daglegrar rútínu og spurningunni um tíma, þá nær höfundur ekki með nógu sannfærandi hætti að vinna úr þessum þráðum öllum heldur týnist þetta í nokkurs konar b-mynda hryllingi. Eftir situr að sannindi Hávamála þess efnis að maður sé manns gaman standa ávallt fyrir sínu, enda myndu flestir væntanlega hrylla sig við tilhugsunina um að vera einn og einangraður í geimstöð til æviloka.