— AFP
Talsmenn hryðjuverkasamtakanna Hamas skoruðu í gær á erlend ríki að hætta að varpa matvælum til Gasasvæðisins úr lofti eftir að 12 manns drukknuðu í Miðjarðarhafi og sex til viðbótar tróðust undir í mannfjölda sem þusti að matvælasendingunum á norðurhluta svæðisins

Talsmenn hryðjuverkasamtakanna Hamas skoruðu í gær á erlend ríki að hætta að varpa matvælum til Gasasvæðisins úr lofti eftir að 12 manns drukknuðu í Miðjarðarhafi og sex til viðbótar tróðust undir í mannfjölda sem þusti að matvælasendingunum á norðurhluta svæðisins. Skoraði heilbrigðisráðuneyti Hamas-samtakanna á Ísraelsmenn að hleypa frekar fleiri vörubílum með matvæli inn á svæðið.

Ekkert lát var á átökum Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna í gær, þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefði krafist þess í fyrradag að samið yrði um tafarlaust og varanlegt vopnahlé.

Leiðtogi Hamas, Ismail Haniyeh, heimsótti Íran í gær og fagnaði þar ályktun öryggisráðsins. Sagði hann Ísraelsríki nú búa við einangrun á alþjóðavísu.