Fjarvinna Hægt er að jafna aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis með óstaðbundnum störfum hjá stofnunum landsins þar sem það á við.
Fjarvinna Hægt er að jafna aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis með óstaðbundnum störfum hjá stofnunum landsins þar sem það á við. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Fimmtungur stofnana sem tók þátt í könnuninni auglýsti óstaðbundin störf á tímabilinu frá mars 2020 til desember 2023,“ segir Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, en hún vann skýrslu fyrir framkvæmdahóp um innleiðingu stefnu stjórnvalda um óstaðbundin störf. Kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að styðja við byggðaþróun í landinu og þáttur í því er að störf hjá ríkinu séu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.

Hún segir það vera jákvætt hversu hátt hlutfall stofnana er sem hafa ráðið starfsfólk í óstaðbundin störf. Í heildina var áætlað að auglýsa mætti 12% starfa hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins sem óstaðbundin. Þær stofnanir sem tóku þátt í könnuninni núna og síðast töldu nú að 15% starfa væru vel hæf fyrir fjarvinnu, samanborið við 8% 2020.

Þá sýndi könnunin að 21% stofnana telur mjög eða frekar líklegt að þær auglýsi og ráði í óstaðbundin störf á næstu 12 mánuðum. Hins vegar telja 60% stofnana það vera ólíklegt. Þá sögðu 49% svarenda frekar eða mjög ólíklegt að þeir muni auglýsa eða ráða í óstaðbundin starf á næstu tveimur árum, en árið 2020 var sú tala 63%.

81% í háskólaráðuneytinu

Það ráðuneyti sem telur sig geta boðið hæst hlutfall óstaðbundinna starfa er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, eða 81% allra sinna starfa. Sæunn segir að þar geti sérstök áhersla ráðherrans, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, skipt sköpum. Hún hafi lagt sérstaklega mikla áherslu á að reyna að jafna aðstöðumun landsbyggðar til móts við stórborgarsvæðið. „Það er mjög flott framtak hjá henni og alveg í samræmi við stjórnarsáttmálann.“

Þegar Sæunn er spurð hvort áhersla á óstaðbundin störf hafi skapast eftir reynslu covid-áranna, segir hún að það hafi þegar verið byrjað að reyna að styðja við landbyggðina með óstaðbundnum störfum fyrir þann tíma.

„Svo var byrjað að safna gögnum um reynsluna í byrjun 2020 fyrir covid en núna er komin meiri reynsla og betri aðstaða fyrir fjarvinnu. Byggðastofnun heldur utan um 120 starfsstöðvar víðs vegar á landinu, þar sem hægt er að leigja sér skrifborð eða vinnuaðstöðu,“ segir hún og kemur þá inn á það sem margir myndu segja mesta ókostinn við óstaðbundna vinnu, en það sé skorturinn á félagslegum tengslum í starfinu.

„Í þessari könnun tóku stofnanir út um allt land þátt, en árið 2020 voru það einungis stofnanir í Reykjavík,“ segir Sæunn. Hún segir að vissulega bjóði ekki öll störf upp á fjarvinnumöguleika, eins og störf hjá lögregluembættunum, en sífellt fleiri taki vel í að bjóða upp á sérfræðistörf sem geti farið til landsbyggðarinnar þótt stofnunin sé starfrækt á höfuðborgarsvæðinu.