Starfsmenn Íslandsbanka fá hundrað þúsund krónur í sumargjöf frá bankanum. Heildarupphæð vegna gjafanna nemur tæplega 70 milljónum króna en hjá bankanum starfa um 700 manns. Edda Hermannsdóttir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka staðfesti þetta og…

Starfsmenn Íslandsbanka fá hundrað þúsund krónur í sumargjöf frá bankanum. Heildarupphæð vegna gjafanna nemur tæplega 70 milljónum króna en hjá bankanum starfa um 700 manns.

Edda Hermannsdóttir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka staðfesti þetta og bætti við að þessi háttur hefði verið hafður á undanfarin ár. Þess má geta að íslenska ríkið fer enn með 42,5% hlut í bankanum.

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins var allt annað en sáttur við sumargjöfina, inntur álits, og benti á að upphæðin væri ígildi fjögurra mánaða launahækkunar sem verkalýðsfélögin hefðu verið að semja um. „Þetta sýnir bara hvernig fjármálakerfið virkar. Það kemur svo sem ekkert á óvart þegar það kemur úr þessum ranni,“ sagði Vilhjálmur.

Rúnar Pálmason upplýsingafulltrúi Landsbankans sagði í gær að engin ákvörðun hefði verið tekin um hvort starfsmenn fyrirtækisins fengju sumargjöf. Kvaðst hann ekki muna til þess að starfsmönnum hefðu verið gefnar peningagjafir í sumar- og haustgjafir. Hann sagði þó þekkt að starfsmenn fengju litlar tækifærisgjafir á borð við vatnsbrúsa.

Haraldur Guðni Eiðsson upplýsingafulltrúi Arion banka staðfesti að ekki séu áform um að gefa starfsmönnum bankans sumargjafir.