Marías Sveinsson
Marías Sveinsson
Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn og góður fræðari.

Marías Sveinsson

Nú fer að líða að því að kjörinn verði nýr biskup. Þá væri ekki úr vegi að minnast á nokkur atriði sem Biblían kennir okkur og spyrja á hvaða leið kirkjan og guðdómurinn hefur verið. Þórhallur Heimisson skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðinu 13. febrúar: Minni þjóð – meiri kirkja. Ég vil taka undir með Þórhalli og endursegja nokkrar stiklur sem hann bendir á.

Verðum aftur kirkja? Eða með öðrum orðum: tækifærið til þess að endurnýja kirkjuna sem kirkju Krists er núna.

1. Kirkjan á að standa fast á hinni klassísku kenningu sinni um Jesú Krist sem son Guðs er fæddist, dó og reis upp.

2. Kirkjan á ekki að fela Jesú í almennri skrúðmælgi um kærleikann og vináttuna og góðmennskuna.

3. Kirkjan á ekki að falla í þá freistni að vilja vingast við alla. Við þurfum ekki að vera sammála öllum bara af því að við erum svo góð. Kristnir menn þurfa ekki að vera átakafælnir og meðvirkir bara af því að þeir eru lærisveinar Jesú.

4. Kirkjan á að taka þátt í samfélagsumræðunni. Sem kristnir þurfum við að minna á að hugmyndir um jafngildi allra manna og þar með almenn mannréttindi og félagslegar skyldur samfélagsins byggjast á kenningu Krists.

5. Kirkjan þarf að benda á sannleikann. Sannleikann og klettinn sem hún er byggð á sem er Jesús Kristur.

6. Kirkjan á alltaf að starfa með einstaklingnum og fyrir einstaklinginn þar sem hann er að finna. Bera með honum ok dagsins.

7. Kirkjan á að sýna í orði og verki að henni sé treystandi.

8. Kristnir menn þurfa að tala um Biblíuna og boðskap hennar. Og þá staðreynd að kirkjan byggir tilveru sína á henni en ekki á almennum siðaboðum og heimspekilegum vangaveltum. Ritningin ein er grunnur kirkjunnar.

9. Kirkjan á að kannast við að hún er ekki kirkja einnar þjóðar heldur kirkja allra þjóða og allra manna, lifandi og dauðra.

10. Kirkjan á að vera merkisberi vonar, hún á að þora að fylkja sér undir fána Krists og segja við veröld í neyð og svartnætti: Undir þessu merki muntu sigra.

Þessi orð eru eins og töluð frá mínu hjarta, þetta er m.a. það sem kirkjan á að standa fyrir.

Það er hörmulegt að sjá hvernig þjóðin er að henda Guði út úr öllu og hvernig margir prestar eru komnir langt frá hinum rétta boðskap talandi um pólitík og peninga o.fl. sem á ekkert skylt við kristinn boðskap, enda fer allt versnandi í heiminum, græðgin og eiginhagsmunagæslan óstjórnleg, fjöldinn allur keppir að því að verða ríkasta líkið í kirkjugarðinum.

Páll postuli, sem valinn var af Kristi sjálfum á leið sinni til Damaskus að ofsækja kristna, fékk vitrun (14 Vér féllum allir til jarðar, og ég heyrði rödd, er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig. 15 En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús, sem þú ofsækir. 16 Rís nú upp og statt á fætur þína. Til þess birtist ég þér, að ég vel þig til þess að vera þjónn minn og vitni þess, að þú hefur séð mig bæði nú og síðar, er ég mun birtast þér.)

Þessi mikli postuli og fræðimaður skrifaði eitt af mörgum bréfum sínum til Tímoteusar til að kenna um guðsþjónustu, bænargjörð og um leiðtoga kirkjunnar (1 Tímoteus 2:1-15 1 Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, 2 til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði. 3 Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, 4 sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. 5 Einn er Guð, einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús, 6 sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á settum tíma. 7 Til að boða hann er ég skipaður prédikari og postuli, ég tala sannleika, lýg ekki, kennari heiðingja í trú og sannleika. 9 Sömuleiðis vil ég að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum, 10 heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka. 11 Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. 12 Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát, 13 því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. 14 Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg og (3:1-7 1 Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi, þá girnist hann fagurt hlutverk. 2 Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari. 3 Ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn. 4 Hann á að vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði. 5 Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón? 6 Hann á ekki að vera nýr í trúnni, til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn. 7 Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.

Að lokum vona ég og bið að okkur hlotnist að fá réttan og trúaðan biskup sem snýr við þróun kirkjunnar.

Höfundur er áhugamaður um kristna trú.

Höf.: Marías Sveinsson