Hólmgeir Baldursson
Hólmgeir Baldursson
Er ekki bara sanngjarnt að það sama gangi yfir alla?

Hólmgeir Baldursson

Ég þreytist seint á að reyna af veikum mætti að hamra það inn í ráðamenn þjóðarinnar að það er rangt gefið á íslenskum fjölmiðlamarkaði og á meðan ríkisvaldið styrkir fréttamiðla um fleiri hundruð og fimmtán milljónir árlega er nákvæmlega ekki túkall eyrnamerktur afþreyingarmiðlum á borð við þá sem ég hef hent fram úr erminni á síðustu áratugum. Aldrei hefur svo mikið sem ein króna verið til boða fyrir afþreyingarmiðla, sem af veikum mætti halda uppi baráttu sinni gegn erlendu streymi og sjóræningjastarfsemi sem keppa við löglega afþreyingarmiðla landsins.

Nú ber svo við að ríkið er með tillögu til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu og aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla til 2030. Gott og vel. Ég ritaði þar nokkur fátækleg orð og á eftir komu fínar og flottar greinargerðir ýmissa aðila sem er auðvitað vel og vonandi leggja ráðamenn við hlustir.

En rauði þráðurinn er sú lagaskylda sem ríkið leggur á innlenda skráða afþreyingarmiðla, myndveitur eða hvað svo sem menn vilja kalla þessa starfsemi. Hún er í bullandi basli í samkeppni við erlend afþreyingaröfl svo í guðanna bænum, ráðamenn; vaknið og finnið ilminn af íslenskunni sem við, þessi deyjandi stétt, erum að koma til landsmanna, hvort sem það er íslenskur texti, talsetning eða íslensk sjónvarpsframleiðsla. Því lesandi góður, erlendum aðilum ber engin skylda til að íslenska sitt afþreyingarefni, alls engin! Þetta er ekki sanngjarnt á samkeppnismarkaði, það sér hver heilvita maður.

Og þetta er ekki allt því á meðan íslenskir miðlar keppa annars vegar við erlenda keppinauta þá er það einnig ríkisútvarpið sem er jú rekið fyrir skattfé landsmanna. Samkeppnisstaða Skjás 1 sem dæmi er verulega skekkt, því samkeppnishæfni stöðvarinnar er nákvæmlega engin, enda varla sanngjarnt að RÚV fái fullan fjárstuðning af hálfu ríkisins við framleiðslu, íslenskaðan texta á dagskrárefni sitt eða íslenska talsetningu á meðan aðrir miðlar lepja dauðann úr skel og þurfa að reiða sig á áskriftar- og auglýsingatekjur.

Væri kannski nærtækt í ljósi stöðunnar og sívaxandi enskuvæðingar nýrra kynslóða að hreinlega afnema textaskyldu á sýnt efni hjá íslenskum afþreyingarmiðlum? Er ekki bara sanngjarnt að það sama gangi yfir alla?

Ég er nokkuð viss um að ráðamenn þjóðarinnar vilja ekki sjá það raungerast, þannig að gyrðið ykkur í brók og hættið að slá ykkur á brjóst til varnar íslenskunni og virkilega gerið eitthvað í málinu.

Höfundur er áhugamaður um sjónvarp.