Ísland er með ósigrinum úr leik í undankeppni Evrópumótsins og þarf í annað skiptið í röð að sætta sig við að missa af EM með tapi í hreinum úrslitaleik. Það gerðist líka í nóvember árið 2020 þegar Ísland tapaði fyrir Ungverjalandi, 2:1, í Búdapest…

Ísland er með ósigrinum úr leik í undankeppni Evrópumótsins og þarf í annað skiptið í röð að sætta sig við að missa af EM með tapi í hreinum úrslitaleik. Það gerðist líka í nóvember árið 2020 þegar Ísland tapaði fyrir Ungverjalandi, 2:1, í Búdapest eftir að hafa verið marki yfir fram á lokamínútur leiksins.

Úkraína fer í E-riðil keppninnar og leikur gegn Rúmeníu, Slóvakíu og Belgíu dagana 17. til 26. júní. Tvö efstu lið riðilsins komast beint í sextán liða úrslitin og þangað komast líka fjögur af þeim sex liðum sem hafna í þriðja sæti riðlanna.

Næsta verkefni íslenska landsliðsins er í júní en þá spilar liðið tvo afar áhugaverða vináttulandsleiki gegn tveimur af sterkustu þjóðum Evrópu sem eru að búa sig undir EM í Þýskalandi. Sá fyrri er gegn Englendingum á Wembley-leikvanginum í London 7. júní og sá síðari er gegn Hollendingum á Feyenoord-leikvanginum í Rotterdam þremur dögum síðar, 10. júní.

Ísland mun síðan spila sex leiki í haust, í Þjóðadeildinni 2024-25, en riðlakeppnin er leikin frá september og fram í nóvember. Þar leikur Ísland gegn Svartfjallalandi á Laugardalsvelli 6. september, gegn Tyrklandi á útivelli 9. september, gegn Wales á Laugardalsvelli 11. október, gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli 14. október og loks gegn Svartfjallalandi á útivelli 16. nóvember og gegn Wales á útivelli 19. nóvember.