— Morgunblaðið/Eggert
Hamflettur er yfirskrift myndbandsinnsetningar Siggu Bjargar Sigurðardóttur og Mikaels Lind í Listasafni Árnesinga. Innsetningin er unnin sérstaklega fyrir sýninguna og samanstendur af þrjátíu vídeóverkum og þrjátíu hljóðverkum sem unnin eru fyrir þrjá skjávarpa og sex hátalara

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Hamflettur er yfirskrift myndbandsinnsetningar Siggu Bjargar Sigurðardóttur og Mikaels Lind í Listasafni Árnesinga. Innsetningin er unnin sérstaklega fyrir sýninguna og samanstendur af þrjátíu vídeóverkum og þrjátíu hljóðverkum sem unnin eru fyrir þrjá skjávarpa og sex hátalara. Á sýningunni má einnig sjá brot af þeim þrjátíu teikningum sem urðu til við gerð myndbandsverkanna og eru unnar með blýanti, penna og vatnslit á pappír.

Sigga Björg og Mikael hafa átt góða samvinnu á liðnum árum. „Í byrjun var Mikael oft að vinna hljóðverk við vídeóin mín og ég gerði plötuumslög fyrir hann,“ segir Sigga Björg.

Á síðasta ári sýndu þau í Ásmundarsal vídeóverkið „Umhverfa“, þar sem hljóðheimur umlukti myndheim. „Þar prófuðum við fyrst að gera hlutina í algjörri samvinnu og þar skapaðist góð dýnamík. Þetta verk kemur í beinu framhald af því, við unnum það í algjörri samvinnu. Ég teiknaði og teiknaði og þegar ég kláraði vídeóverk sendi ég það á Mikael. Við völdum síðan þrjátíu vídeóverk sem er varpað á þrjá veggi. Í vídeóunum er ég að búa til hreyfimynd úr ferlinu að búa til teikningu. Ferlið er tekið upp ramma fyrir ramma. Sumar teikninganna eru svarthvítar og aðrar eru í lit, sumar eru fígúratífar en aðrar abstrakt,“ segir Sigga Björg.

„Ég er að túlka abstrakt form og fígúrur með hljóðum sem eru ekki hefðbundin heldur einkennast af fjölbreyttum raftónlistarstílum. Hver lína hefur ákveðið hljóð og hver litur hefur sitt hljóð og svo framvegis. Ég vinn stafrænt og get því verið mjög nákvæmur,“ segir Mikael.

Verkið er upplifunarverk. Þegar gestir koma inn í sýningarsalinn má segja að þeir fari inn í verkið og upplifi og skynji. „Þarna eru þrír skjávarpar og verkin eru mislöng. Í hvert sinn sem gengið er inn í salinn sjást mismunandi myndir og það sama á við um hljóðin. Gestir heyra þrjú hljóðverk á sama tíma og sjá þrjár myndir á sama tíma en aldrei sömu þrjár,“ segir Sigga Björg.

Verk Siggu Bjargar hafa verið sýnd víða erlendis og í helstu listasöfnum og listrýmum á Íslandi. Verk hennar eru í safneignum helstu listasafna hér á landi auk safna á Norðurlöndunum, Englandi, Sviss og Þýskalandi. Mikael Lind hefur gefið út fjórar breiðskífur auk fjölda stafrænna útgáfa, bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra. Mikael hefur spilað tónlist sína í fjölda tónleikarýma á Íslandi og víða í Evrópu.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir