Mark Kristall Máni Ingason skoraði mark Íslands úr víti í gærkvöldi.
Mark Kristall Máni Ingason skoraði mark Íslands úr víti í gærkvöldi. — Ljósmynd/Alex Nicodim
Íslenska U21 árs landslið karla í fótbolta fékk skell, 4:1, er það mætti því tékkneska á útivelli í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Slóvakíu á næsta ári. Tékkneska liðið byrjaði af miklum krafti og komst í 2:0 á fyrstu 20 mínútunum er þeir Václav Sejk og Daniel Fila skoruðu

Íslenska U21 árs landslið karla í fótbolta fékk skell, 4:1, er það mætti því tékkneska á útivelli í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Slóvakíu á næsta ári.

Tékkneska liðið byrjaði af miklum krafti og komst í 2:0 á fyrstu 20 mínútunum er þeir Václav Sejk og Daniel Fila skoruðu. Sejk skoraði með skalla af stuttu færi og Fila með skoti af stuttu færi, en varnarmenn Íslands voru illa staðsettir í báðum mörkum.

Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik, en varamaðurinn Christophe Kabongo bætti við þriðja marki Tékklands á 52. mínútu með góðu skoti við vítateigslínuna og Fila gerði sitt annað mark og fjórða mark Tékklands á 70. mínútu er hann slapp inn fyrir vörn Íslands.

Kristall Máni Ingason gerði mark Íslands úr víti á 79. mínútu eftir að Valgeir Valgeirsson var felldur innan teigs og þar við sat.

Þrátt fyrir úrslitin er Ísland enn í þriðja sæti með sex stig, einu stigi meira en Tékkland. Eru þau bæði búin að leika fjóra leiki. Wales er í öðru sæti með ellefu stig eftir sex leiki og Danmörk í toppsætinu með ellefu stig eftir fimm leiki. Litháen rekur lestina, án stiga.

Danmörk vann öruggan 3:0-heimasigur á Litháen í hinum leik riðilsins í gær. Ísland og Danmörk mætast á Íslandi í næstu umferð en sá leikur verður ekki spilaður fyrr en 6. september.

Efsta lið hvers riðils er öruggt með sæti á EM, eins og þau þrjú lið sem enda með bestan árangur í öðru sæti. Önnur lið sem enda í öðru sæti fara í umspil um sæti á lokamótinu.