Gleði Leikmenn SR voru skiljanlega kampakátir í leikslok eftir sætan sigur á SA, sem tryggði liðinu oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Akureyri.
Gleði Leikmenn SR voru skiljanlega kampakátir í leikslok eftir sætan sigur á SA, sem tryggði liðinu oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Akureyri. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úrslit Íslandsmóts karla í íshokkí ráðast í oddaleik í Skautahöll Akureyrar klukkan 16.45 á morgun, en það varð ljóst eftir 5:3-sigur Skautafélags Reykjavíkur á Skautafélagi Akureyrar í fjórða leik liðanna í Skautahöllinni í Laugardalnum í gærkvöldi

Íshokkí

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Úrslit Íslandsmóts karla í íshokkí ráðast í oddaleik í Skautahöll Akureyrar klukkan 16.45 á morgun, en það varð ljóst eftir 5:3-sigur Skautafélags Reykjavíkur á Skautafélagi Akureyrar í fjórða leik liðanna í Skautahöllinni í Laugardalnum í gærkvöldi.

SA hefði með sigri orðið Íslandsmeistari, en ríkjandi meistararnir í SR höfðu lítinn áhuga á að fara í frí.

Uni Sigurðarson kom Akureyringum að vísu yfir eftir 14. mínútur, en strax í næstu sókn jafnaði Axel Snær Orongan. Felix Dahlstet, Gunnlaugur Þorsteinsson og Ólafur Björnsson breyttu stöðunni svo í 4:1 fyrir Reykvíkinga og meistararnir í góðum málum.

Akureyringar gáfust hins vegar ekki upp og landsliðsmaðurinn Jóhann Már Leifsson gerði lokakaflann spennandi. Fyrst minnkaði hann muninn á 32. mínútu og svo enn frekar á 45. mínútu, 4:3.

Góð auglýsing

Gestirnir reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna á lokakaflanum og komust nærri í blálokin. Þess í stað refsaði Axel Snær með sínu öðru marki og fimmta marki SR á síðustu sekúndunum, þegar SA-ingar skildu markið sitt eftir opið og þar við sat.

„SA-menn gerðu sér erfitt fyrir síðustu mínútur leiksins með brottvísunum en liðið var mjög mikið manni færri í þriðja leikhluta. Þegar örfáar mínútur voru eftir varð liðið loks fullskipað og fór þá allt púður í að reyna að jafna metin. Þegar um mínúta var eftir tók liðið Jakob úr markinu og setti auka útileikmann á svellið. Hins vegar missti Atli Sveinsson pökkinn til Axels Orongans þegar níu sekúndur voru eftir af leiknum og Axel átti ekki í vandræðum að skauta fram og skora í opið mark,“ skrifaði Aron Elvar Finnsson m.a. um leikinn á mbl.is.

Einvígið er góð auglýsing fyrir íshokkí á Íslandi, rétt eins og einvígi sömu liða á síðasta ári. Þá vann SR einmitt eftir oddaleik og nú mætast þau aftur í leik þar sem allt er undir. Svona viljum við hafa þetta.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson