Haukadalur Hverinn Strokkur gýs reglulega og hefur mikið aðdráttarafl fyrir þá ferðamenn sem koma á svæðið.
Haukadalur Hverinn Strokkur gýs reglulega og hefur mikið aðdráttarafl fyrir þá ferðamenn sem koma á svæðið. — Morgunblaðið/Ómar
Á næstu dögum hefjast framkvæmdir vegna uppbyggingar nýrra gönguleiða við Geysi í Haukadal. Þetta er 1. áfangi í gerð hringleiðar um hverasvæðið. Verklok á þessum áfanga eru áætluð í september 2024. Áætlað er að ljúka við heildaruppbyggingu svæðisins í árslok 2025

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á næstu dögum hefjast framkvæmdir vegna uppbyggingar nýrra gönguleiða við Geysi í Haukadal. Þetta er 1. áfangi í gerð hringleiðar um hverasvæðið.

Verklok á þessum áfanga eru áætluð í september 2024. Áætlað er að ljúka við heildaruppbyggingu svæðisins í árslok 2025.

Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að ráðist sé í þessar framkvæmdir til að hlífa náttúrunni við ágangi og raski og bæta upplifun gesta af svæðinu með betri dreifingu þeirra. Ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt við Geysi og er þetta liður í því að taka betur á móti þeim gestafjölda.

Framkvæmdunum getur fylgt bæði truflun fyrir gesti og jarðrask. Þá er líklegt að sjá muni á gróðri í nágrenni gönguleiðanna meðan á framkvæmdum stendur.

Þess verður gætt eftir fremsta megni að halda raski í lágmarki og lagfæra svæðið eins og hægt er að framkvæmdum loknum.

Aðgengi að hverasvæðinu verður að mestu óhindrað á framkvæmdatíma. Þó gæti þurft að takmarka það að hluta eftir framvindu verks. Lokanir verða merktar sérstaklega innan hverasvæðis.

Landmótun sf. landslagsarkitektar hanna breytingarnar á Geysissvæðinu. Hönnunin er byggð á sigurtillögu fyrirtækisins í samkeppni sem lauk árið 2014, en hefur verið aðlöguð að stóraukinni umferð ferðafólks um svæðið síðan þá.

Framkvæmdir á svæðinu eru í höndum Wiium ehf. verktaka. Tilboð verktakans í áfangann var 237,4 milljónir króna. Áætlun hans gerir ráð fyrir 8-12 starfsmönnum á staðnum, eftir aðstæðum og framvindu.

Umsjónaraðili verkefnisins fyrir hönd Umhverfisstofnunar er Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, FSRE.

Geysissvæðið í Haukadal er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar enda eitt fárra sem þekkt voru í árhundruð. Fjölmargir hverir og laugar eru á svæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þeirra þekktastir. Svæðið er einstakt á heimsvísu.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson