Karphúsið Samningar tugþúsunda losna á annan í páskum.
Karphúsið Samningar tugþúsunda losna á annan í páskum. — Morgunblaðið/Golli
Viðræður um endurnýjun kjarasamninga liggja að mestu niðri í þessari viku vegna páskaleyfis og hefur verið rólegt í húsnæði ríkissáttasemjara síðustu daga. Meginþorri kjarasamninga á opinbera markaðnum rennur út um páskahelgina þar sem gildistími…

Viðræður um endurnýjun kjarasamninga liggja að mestu niðri í þessari viku vegna páskaleyfis og hefur verið rólegt í húsnæði ríkissáttasemjara síðustu daga. Meginþorri kjarasamninga á opinbera markaðnum rennur út um páskahelgina þar sem gildistími flestra kjarasamninga BSRB- og BHM-félaga við ríkið og sveitarfélögin er til 31. mars. Á sama tíma renna út samningar hjúkrunarfræðinga. Samningar sveitarfélaganna við kennara losna hins vegar í lok maí.

Búist er við að viðræður komist í gang af fullum þunga í næstu viku.

Samband íslenskra sveitarfélaga gerði í síðustu samningalotu 63 kjarasamninga við 58 stéttarfélög í BSRB, BHM, KÍ, ASÍ og félög utan bandalaga, og Reykjavíkurborg 19 samninga beint við stéttarfélög.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að samninganefndin hafi átt í miklum undirbúningi og viðræðum að undanförnu en þær liggi niðri þessa dagana vegna páskafrís. „Eftir páska fer allt í fullan gang. Við erum búin að ná fyrstu umferð fyrir páska og svo tókum við líka þátt í samningunum á almenna markaðinum.“

Spurð hvort fylgt sé þeirri launastefnu sem mörkuð hefur verið í samningum á almenna markaðinum segir hún að svo sé. Stjórnvöld hafi fjárfest í þessari stefnu og gengist inn á hana. „Við vinnum samkvæmt því,“ segir hún.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir í páskapistli á vef félagsins að viðræður um málefni á borð við betri vinnutíma, baktvaktamál, veikindakafla o.fl. hafi gengið vel en annað samtal sé rétt á byrjunarstigi. „Aðrir kjarasamningar binda ekki hendur okkar þó svo að þeir hafi áhrif á okkar samningsumhverfi,“ segir í pistli hennar.
omfr@mbl.is