[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsíþróttakonan Ingeborg Eide Garðarsdóttir bætti eigið Íslandsmet í kúluvarpi í flokki F37 fatlaðra á Jesolo 2024 Grand Prix-mótinu á Ítalíu. Hún setti nýverið Íslandsmet á Meistaramóti Íslands í frjálsum innanhúss er hún varpaði kúlunni 9,73 metra

Frjálsíþróttakonan Ingeborg Eide Garðarsdóttir bætti eigið Íslandsmet í kúluvarpi í flokki F37 fatlaðra á Jesolo 2024 Grand Prix-mótinu á Ítalíu. Hún setti nýverið Íslandsmet á Meistaramóti Íslands í frjálsum innanhúss er hún varpaði kúlunni 9,73 metra. Á Ítalíu bætti hún það met og varpaði kúlunni 9,83 metra. Ingeborg varð önnur á mótinu.

Handboltaparið Rut Arnfjörð Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs, og Ólafur Gústafsson, leikmaður KA, flytja suður á höfuðborgarsvæðið í sumar eftir að hafa leikið á Akureyri undanfarin fjögur ár. Handbolti.is greinir frá en ekki liggur fyrir hvort þau haldi áfram að leika handbolta á næsta tímabili.

Brasilíumaðurinn Gabriel Barbosa hefur verið úrskurðaður í tveggja ára bann frá fótbolta eftir að hafa reynt að komast hjá því að taka lyfjapróf. Barbosa, oftast þekktur sem Gabigol, leikur með brasilíska stórliðinu Flamengo og hefur verið einn besti framherji efstu deildar Brasilíu síðustu ár.

Bandaríski knattspyrnumarkvörðurinn Shelby Money er genginn til liðs við Þór/KA frá Gotham FC. Shelby er 26 ára gömul og lék með knattspyrnuliði Rowan-háskólans áður en hún gekk til liðs við Racing Louisville og loks Gotham en bæði lið leika í bandarísku atvinnudeildinni, NWSL.

Körfuknattleiksmaðurinn Illugi Steingrímsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna aðeins 27 ára að aldri. Karfan.is greinir frá en Illugi lék á nýafstöðnu tímabili fyrir uppeldisfélagið KR og vann 1. deildina með liðinu á mánudagskvöld. Stærstan hluta ferilsins lék hann með Val, frá 2014 til 2021, en einnig tvö ár með Ármanni frá 2021 til 2023 áður en Illugi samdi við uppeldisfélagið að nýju.

Skoski tennisleikarinn Andy Murray meiddist alvarlega á ökkla við keppni á Miami Open-mótinu og verður af þeim sökum lengi frá. Murray tapaði fyrir Tékkanum Tomás Machac, 2:1, í æsispennandi leik á sunnudag og meiddist undir lok þriðja setts. BBC Sport greinir frá því að hann hafi slitið tvö liðbönd í ökkla og muni fara til sérfræðings til þess að ákveða næstu skref. Murray hefur áður gefið út að hann ætti að leggja tennisspaðann á hilluna innan skamms og gætu meiðslin orðið til þess að hann hætti fyrr en áætlað var.