Jóel Halldór Jónasson fæddist á Læk á Skógarströnd 26. október 1944. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum í Fossvogi 16. mars 2024.

Foreldrar Jóels voru Jónas Guðmundsson, f. 27.4. 1905, d. 1978, og Lára Jóelsdóttir, f. 11.3. 1909, d. 1969. Systkini hans: Birgir, f. 1933, d. 2010, Baldur, f. 1934, d. 2015, Lilja Soffía, f. 1937, Guðmundur Þórður, f. 1942, og Herdís, f. 1950.

Jóel hóf sambúð og gekk síðar í hjónaband með Ingu Magnúsdóttur, f. 18.4. 1952, d. 27.6. 1986, hún átti fyrir Bergþór Inga, f. 23.12. 1971, d. 23.5. 2015, gekk Jóel honum í föðurstað. Börn Bergþórs eru Guðbjartur Ingi, Aron Ingi, Inga María, Embla Sól og Alexíus Þór.

Börn Jóels og Ingu eru fimm: Lára, f. 10.7. 1974, dóttir hennar er Birgitta Sólveig; Jóngeir, f. 8.12. 1975, sambýliskona hans er Lilja Harðardóttir, börn þeirra eru Hörður Jóel, Reynir og Heiðrún Inga, einnig á Jóngeir Jón Gunnar; Eva María, f. 4.9. 1978, eiginmaður hennar er Davíð Sæmundsson, börn þeirra eru Karen Alda, Steinunn Ösp, Júlíana Ósk og Óskar Smári; Björk Júlíana, f. 25.2. 1982, eiginmaður hennar er Ólafur B. Hilmarsson, börn þeirra eru Ármann Hugi, Þóra Kolbrún og Halldís Eik; Reynir Magnús, f. 25.2. 1982, sambýliskona hans er Elsa Rún Erlendsdóttir, börn þeirra eru Ronja Björk og Ellý Rögn, fyrir átti Reynir Jóel Helga.

Barnabarnabörn eru Ísak Máni og Amelía Máney Hugabörn og Emelía Rut Heimisdóttir.

Árið 1987 hóf Jóel sambúð með Halldísi Hallsdóttur, f. 13.2. 1945. Þau trúlofuðu sig og gekk Halldís börnum Jóels í móðurstað. Fyrir átti hún Einar Hrafn Aronsson, f. 4.2. 1976, d. 17.2. 2016, gekk Jóel honum í föðurstað. Jóel og Halldís gengu í hjónaband 12. febrúar 2011. Saman stunduðu þau blómlegan búskap á Bíldhóli.

Jóel var mikill hestamaður og stundaði hestamót og hestaferðir. Hann var kirkjuvörður í Breiðabólstaðarkirkju um árabil og meðlimur í kórnum Vorboða. Þau Halldís nutu þess að ferðast, sækja mannamót og njóta félagsskapar vina og fjölskyldu.

Jóel var bóndi af lífi og sál og hans besta stund var eftir gjöf þegar hann settist og fylgdist með kindum sínum að góðu dagsverki loknu.

Jóel ólst upp á Innra-Leiti á Skógarströnd, Snæfellsnesi. Hann stundaði vertíðir og sjómennsku sem ungur maður. Einnig stundaði hann tamningar þar til hann flutti að Þorbergsstöðum í Dölum og hóf þar eigin búskap. Síðar flutti hann að Svarfhóli og stundaði þar búskap til 1976 en flutti þá með fjölskylduna suður þar sem hann stundaði sjómennsku til 1983.

Leiðir Jóels og Ingu skildi og flutti hann með tvö elstu börnin í Borgarnes. Þaðan lá leið hans heim í sveitina, á æskuslóðirnar á Skógarströndinni, hann keypti Bíldhól og síðar Læk. Við andlát Ingu 1986 sameinuðust börnin hjá honum í sveitinni þar sem hann bjó til æviloka að undanskildu síðasta árinu en þá naut hann umönnunar á dvalarheimilinu Brákarhlíð.

Útförin fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 27. mars 2024, klukkan 14.

Elsku pabbi, nú hefur þú kvatt okkur í hinsta sinn. Eftir situr óbærileg sorg og söknuður eftir prakkaranum sem þú varst alltaf, glottinu og skotunum sem ultu upp úr þér og flissinu sem fylgdi í kjölfarið. Það var alltaf grunnt á húmoristanum í þér en á sama tíma bar ég svo mikla virðingu fyrir þér og þú varst alla tíð örugga skjólið mitt, alveg frá því ég kom til þín í sveitina fjögurra ára gömul.

Takk fyrir að vera kletturinn minn elsku pabbi, örugga skjólið, fyrirmynd mín og vinur. Takk fyrir allar ráðleggingarnar – þó ég hafi ekki alltaf hlustað þá veit ég núna að þær voru góðar og mér fyrir bestu. Takk fyrir að taka alltaf á móti mér með opnum örmum eftir allar gloríurnar sem ég gerði á unglingsárunum, ég veit í dag hversu erfitt það hlýtur að hafa verið fyrir þig – fyrirgefðu mér fyrir það! Takk fyrir ófáar ferðirnar okkar í traktornum, það var alltaf svo gott að fá að fara með þér þó svo að hausinn væri alltaf að rekast í rúðuna. Ég man sérstaklega í eitt skiptið, þegar ég var orðin fullorðin og átti eitthvað erfitt og mig langaði bara að fara heim til pabba.

Þegar ég kom svo vestur þá þurfti engin orð, þú bauðst mér bara að koma með þér í traktorinn og þar þögðum við saman og allt varð betra. Takk fyrir að snúast í kringum mig í hestamennskunni, alla reiðtúrana, hestaferðirnar og að rúnta með mig á hestamótin, við áttum það alltaf saman og það fannst mér ómetanlegt. Takk fyrir að sameina okkur systkinin og halda okkur saman svo við fengjum að alast upp saman í dásamlegu sveitinni okkar, þín vegna eigum við hvort annað að.

Takk fyrir allt elsku pabbi minn, við sjáumst seinna og tökum lagið saman í sumarlandinu!

Ég mun varðveita minningu þína í hjarta mínu að eilífu – hvíldu í friði!

Þín dóttir,

Björk Júlíana
Jóelsdóttir.