Um 70% allra farþega Delta Air Lines til Íslands taka tengiflug innan Bandaríkjanna til að komast til landsins.
Um 70% allra farþega Delta Air Lines til Íslands taka tengiflug innan Bandaríkjanna til að komast til landsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland er og verður segull fyrir ferðamenn frá Bandaríkjunum. Það er engin ástæða til að ætla annað en að svo verði áfram. Þetta segir Ilse Janssens, sölustjóri bandaríska flugfélagsins Delta Air Lines í Evrópu, í samtali við ViðskiptaMoggann en hún var nýlega stödd hér á landi

Ísland er og verður segull fyrir ferðamenn frá Bandaríkjunum. Það er engin ástæða til að ætla annað en að svo verði áfram.

Þetta segir Ilse Janssens, sölustjóri bandaríska flugfélagsins Delta Air Lines í Evrópu, í samtali við ViðskiptaMoggann en hún var nýlega stödd hér á landi.

Delta Air hefur flutt um 950 þúsund farþega til Íslands frá því að félagið hóf reglubundið áætlunarflug hingað til lands frá New York árið 2011. Delta Air bætti við flugi frá Minneapolis 2016 og í fyrra hóf félagið reglulegt flug frá Detroit. Umrædd áætlunarflug eru öllu jafna flogin frá vori fram á haust.

„Það hefur verið góð sætanýting í áætlunarfluginu til Íslands og bókanir fyrir sumarið líta vel út,“ segir Ilse.

- Það er mikið rætt um mikilvægi þess að fá meira af betur borgandi ferðamönnum til Íslands. Vitum við mikið um það hvernig ferðamenn eru að koma með ykkur til landsins?

„Það sem við vitum er að flestir sem fljúga með okkur dvelja á Íslandi í 5-7 nætur. Miðað við þá tímalengd má ætla að þeir verji bæði tíma og fjármagni í landinu. Við sjáum líka að viðskiptavinir eru að nýta sér mismundandi vöruframboð félagsins, þ.e. bæði hefðbundið fargjald en eins þær uppfærslur sem eru í boði hjá okkur,“ segir Ilse.

„Að því sögðu þá höfum við ekki lagt áherslu á einn markhóp frekar en annan, heldur erum við meira að horfa til þess að bjóða upp á þessi flug þannig að viðskiptavinir okkar hafi um fleiri áfangastaði að velja og geti nýtt sér þjónustu okkar, sem þeir svo sannarlega gera.“

70% koma víða að vestanhafs

Spurð nánar um það hvaðan farþegar Delta Air koma helst segir hún að tölur félagsins sýni að um 30% farþega komi frá borgunum í kringum tengiflugvellina þrjá sem hér voru nefndir, en að um 70% farþega komi með tengiflugi annars staðar að úr Bandaríkjunum og fljúga þaðan áfram til Íslands.

- Sér Delta fyrir sér að fljúga til Íslands frá fleiri borgum?

„Það er komin góð reynsla á flugið til Íslands og það hefur gengið vel frá þessum þremur borgum sem við erum nú að fljúga frá. Hvað síðar kann að verða er erfitt að segja til um núna. Það er mögulega hægt að auka tíðni eða fjölga áfangastöðum en það verður skoðað hverju sinni,” segir Ilse.

Vöruframboð hefur aukist

Ilse er búin að starfa hjá Delta Air Lines í 22 ár. Spurð um það hvað hafi helst breyst á þessum tíma segir hún að vöruframboð félagsins, og í flugheiminum almennt, hafi þróast mikið með árunum.

„Það er til dæmis þetta fjölbreytta vöruframboð sem ég nefndi áður, sem er til þess fallið að mæta aukinni samkeppni. Viðskiptavinir geta þá valið með hvaða hætti þeir vilja fljúga. Það er auðvitað mikil samkeppni í flugi til og frá Íslandi eins og annars staðar og við þurfum því að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til okkar. Viðskiptavinir okkar vilja upplifun, hreinleika og öryggi og það eru allt atriði sem við getum fært þeim,” segir hún.

Spurð um ferðavenjur í ljósi aðstæðna í hagkerfum beggja vegna Atlantshafsins segir Ilse að aukin verðbólga hafi ekki haft mikil áhrif á ferðavenjur á liðnum tveimur árum.

„Við sáum hversu hratt farþegaflug jókst í heiminum í kjölfar heimsfaraldursins og það er enn eftirspurn eftir flugi. Fólk vill halda áfram að ferðast og það hefur þá kost á því að sníða sér stakk eftir vexti hvað fargjöld varðar. Það er þá undir okkur komið að tryggja fjölbreytt vöruframboð,” segir hún.

Gott samband við fyrirtæki

– Delta virðist ekki auglýsa mikið á Íslandi. Lætur félagið sér nægja á treysta á bandaríska ferðamenn?

„Það er von að þú spyrjir,” segir Ilse í léttum tón.

„Það er alveg rétt að við höfum ekki auglýst mikið hér á landi. Aftur á móti eigum við í góðu sambandi við mörg fyrirtæki og ferðaskrifstofur sem nýta sér þjónustu okkar. En við viljum auðvitað fjölga viðskiptavinum og höldum áfram að leita fjölbreyttra leiða til þess.”