Hækkun reiknaðrar húsaleigu og flugfargjalda hefur vegið þyngst.
Hækkun reiknaðrar húsaleigu og flugfargjalda hefur vegið þyngst.
Tólf mánaða verðbólga mælist nú 6,8% og hækkar um 0,2 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 6,6%. Greiningardeild Íslandsbanka segir að hækkunin sé meiri en spár gerðu ráð fyrir í mars. Þá segir greiningardeildin að hækkun reiknaðrar…

Tólf mánaða verðbólga mælist nú 6,8% og hækkar um 0,2 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 6,6%.

Greiningardeild Íslandsbanka segir að hækkunin sé meiri en spár gerðu ráð fyrir í mars. Þá segir greiningardeildin að hækkun reiknaðrar húsaleigu og flugfargjalda hafi vegið þyngst til hækkunar vísitölunnar í mánuðinum. Enn fremur segir að spá greiningardeildarinnar geri ráð fyrir að verðbólgan hjaðni næstu mánuði.

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur bankans sagði í samtali við mbl.is að verðhækkun á húsnæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins gæti verið skýring á hækkun verðbólgunnar.

Hann segir að markaðsverð húsnæðis hafi hækkað um 1,6% á milli mánaða, samkvæmt mælingum Hagstofunnar. „Þar innan er húsnæði á landsbyggðinni að hækka miklu hraðar en á höfuðborgarsvæðinu. Líklega eru þetta að verulegu leyti áhrif af eftirspurn Grindvíkinga eftir húsnæði í nágrenni höfuðborgarinnar,“ segir Jón Bjarki í samtalinu við mbl.is.

Hann segir að fregnir hafi verið af því að eftirspurn hafi verið mikil eftir íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum og að verð hafi hækkað þar. Sá þrýstingur sé því farinn að mælast.

Góð tíðindi fram undan

Jón Bjarki segir þó góð tíðindi vera fram undan þar sem Hagstofan ætli að taka upp breytingu á útreikningi húsnæðisliðarins í júní næstkomandi. Framvegis muni hann byggjast á leiguverði í stað markaðsverðs húsnæðis, eins og raunin sé víða í nágrannalöndunum.