Bragi Brynjólfsson fæddist 6. júlí 1946 á Sólvangi í Hafnarfirði. Hann lést 12. mars 2024.

Foreldrar Braga voru Rósa Árnadóttir, f. 10.10. 1902, d. 16.1. 1994, og Brynjólfur Sveinsson, f. 28.8. 1891, d. 28.1. 1952. Systkini Braga voru: Sesselja, f. 11.12. 1924, d. 13.5. 1938; Karl f. 28.3. 1926, d. 11.12. 2011, giftur 1953 Kristínu Kristjánsdóttur f. 24.1. 1926, d. 28.2. 2005; Sóley, f. 21.7. 1927, d. 4.2. 2003, gift Bjarna Ágústssyni, d. 9.8. 2004; Haukur Lyngdal, f. 17.12. 1935, d. 10.2. 2017, kvæntur Ásgerði Hjörleifsdóttur.

Bragi giftist Guðlaugu Láru Björgvinsdóttur, f. 14.4. 1946, d. 11.1. 2021, árið 1968 og hófu þau búskap í Hafnarfirði þar sem þau bjuggu alla tíð, lengi á Hjallabraut 92 og síðustu árin á Eskivöllum 21a. Börn þeirra eru: 1) Kristvin Már, f. 1965, maki Maria Carina Zanoria, f. 1972. 2) Brynja Björg, f. 1971, maki Valur Bjarni, f. 1970, og börn þeirra eru Fanney, f. 1996, Kristján Bragi, f. 2000, og Hildur, f. 2004. 3) Linda, f. 1973, maki Stefán, f. 1970, og börn þeirra eru Helga, f. 2003, og Stefán, f. 2007. 4) Ívar, f. 1978, maki Sigrún Helga, f. 1980, og börn þeirra eru Freyja Bjarnveig, f. 2008, og Brynhildur, f. 2012. 5) Bjarki, f. 26.4. 1985, d. 21.4. 2021, dóttir Bjarka er Dallilja, f. 2011.

Bragi ólst upp og bjó alla tíð í Hafnarfirði. Hann fór ungur í Iðnskólann og útskrifaðist þaðan sem húsasmiður. Bragi starfaði alla sína starfsævi sem húsasmiður eða þar til hann lét af störfum rúmlega sjötugur. Einnig þótti honum ávallt vænt um tíma sinn þegar hann starfaði við fiskflutning hjá Sjávarfiski í Hafnarfirði.

Útför Braga fer fram frá Ástjarnarkirkju í dag, 27. mars 2024, klukkan 13. Jarðsett verður í Hafnarfjarðarkirkjugarði að athöfn lokinni.

Elsku Bragi tengdafaðir minn hefur kvatt þessa jarðvist. Bragi var einstakur maður og afar eftirminnilegur flestum þeim sem honum kynntust. Honum er hægt að lýsa í aðra röndina með orðunum reffilegur, töffari, hrjúfur, skapmikill og skoðanasterkur, en á hina röndina með orðunum mjúkur, húmoristi, félagsvera, náttúruunnandi, barngóður og umhyggjusamur.

Bragi var afskaplega duglegur maður. Hamhleypa til verka og alltaf að. Smiður af Guðs náð. Hann vann við smíðar alla tíð samhliða því sem hann vann hörðum höndum að því að koma þaki yfir fjölskyldu sína þegar hann byggði fjölskylduheimili þeirra Lóu að Hjallabraut 92 í Hafnarfirði sem og griðastað fjölskyldunnar, sumarhús þeirra að Seljalandi við Laugarvatn. Þar byggðu þau og ræktuðu sannkallaða paradís þar sem fjölskyldan naut þess að dvelja við samveru og afslöppun.

Bragi staldraði hins vegar alltaf stutt við. Vaknaði ávallt fyrstur, fékk sér hafragraut og kaffi, en var svo jafnan rokinn út í hin ýmsu verkefni, smíðar, skógrækt og eftirlit með ýmsum hlutum á sumarbústaðasvæðinu. Ég nefndi það eitt sinn við hann þegar líða tók að lokum starfsævinnar hvort það væri ekki sniðugt fyrir hann að finna sér hobbí. Hann ynni við smíðar og væri alltaf smíðandi í frítímanum. Þessi uppástunga féll ekki í góðan jarðveg. Hann talaði ákveðið til mín þegar hann svaraði því til að nei, hann þyrfti sko ekki að finna sér hobbí. Hann ynni við smíðar og smíðar væru hans áhugamál og hefðu alltaf verið. Á öðru þyrfti hann ekki að halda. Þar með var það mál afgreitt. Það má þó segja að barnabörnin hafi ekki síður verið hans áhugamál – var hann sjaldan kallaður annað en afi Bragi af öllum í fjölskyldunni, enda mikill barnakarl. Fuglar og dýr voru honum líka hugleikin. Hann fylgdist grannt með og vissi allt um fuglalíf í kringum sig, sérstaklega í nágrenni sumarbústaðarins.

Lóa og Bragi voru samrýnd hjón og miklir félagar. Það var honum því mikið áfall þegar hún kvaddi okkur í byrjun árs 2021. Líf hans hafði síðustu ár snúist í kringum Lóu og að styðja við hana í veikindum hennar. Þegar næsta áfall dundi yfir einungis tæpum fjórum mánuðum síðar, þegar Bjarki yngsti sonur hans varð bráðkvaddur, varð heimsmynd hans algjörlega umturnað. Hann hélt þó áfram af seiglu og dug – og leitaðist við að feta áfram veginn. Fljótlega fór að bera á einkennum heilabilunar, sem áföllin hafa líklega hrundið af stað. Síðustu mánuði hafði honum hrakað mikið. Enn skein þó hans mikli persónuleiki svo sterkt í gegn. Húmorinn aldrei langt undan sem og áhuginn á því að ræða málin við mann og annan.

Við kveðjum hann í þeirri trú og vissu að hann sé nú kominn í faðm elsku Lóu sinnar, Bjarka og annarra sem á undan honum hafa farið. Hann skilaði góðu lífsverki, nýtti vel það sem honum gafst og var okkur öllum svo mikilvægur og kær. Ég kveð tengdaföður minn með söknuði og umfram allt þakklæti.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Sigrún Helga Jóhannsdóttir.