Hamraborg Þjófnaðurinn átti sér stað fyrir utan Catalinu í Hamraborg í Kópavogi að morgni mánudags.
Hamraborg Þjófnaðurinn átti sér stað fyrir utan Catalinu í Hamraborg í Kópavogi að morgni mánudags. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lýst eftir tveimur mönnum sem grunaðir eru um að hafa stolið um 20-30 milljónum úr peningaflutningabíl í Hamraborg í Kópavogi að morgni mánudags. Þjófnaðurinn, sem er einn sá stærsti af þessu tagi í…

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lýst eftir tveimur mönnum sem grunaðir eru um að hafa stolið um 20-30 milljónum úr peningaflutningabíl í Hamraborg í Kópavogi að morgni mánudags. Þjófnaðurinn, sem er einn sá stærsti af þessu tagi í Íslandssögunni, átti sér stað í Hamraborg fyrir utan veitingahúsið Catalinu þar sem peningaflutningabíl á vegum Öryggismiðstöðvarinnar var lagt.

Það var á tíunda tímanum að morgni mánudags sem mennirnir brutust inn í peningaflutningabílinn og stálu þaðan alls sjö töskum. Að sögn Heimis Ríkarðssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni í Kópavogi, voru þó einungis peningar í tveimur af sjö töskum, en um er að ræða sérhæfðar læstar verðmætatöskur sem búnar eru litasprengjum sem eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til að nálgast þau. Óljóst er um virkni sprengjanna að sögn Heimis, en vísbendingar eru um að þær hafi sprungið í einhverjum töskum en ekki öllum.

Söguðu göt með slípirokk

Skömmu eftir þjófnaðinn lýsti lögreglan eftir dökkgrárri Toyota Yaris-bifreið, árgerð 2014. Í lýsingunni kom fram að tvær mismunandi númeraplötur væru á bifreiðinni að framan og aftan. Bíllinn er enn ófundinn en lögreglan hefur birt myndir af mönnunum tveimur í umræddri bifreið. Heimir segir harla ólíkegt að sömu númeraplötur séu enn á bílnum.

Skömmu eftir hádegi í gær gekk vegfarandi sem átti leið um Esjumela fram á fjórar af þeim töskum sem mennirnir höfðu á brott en hinar þrjár fundust í Mosfellsbæ. Á myndskeiði sem mbl.is barst má sjá að þjófarnir höfðu sagað göt á töskurnar til að ná fjármununum úr þeim. Að sögn Heimis virðist það hafa verið gert með slípirokk.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir