Orka ON getur kært ákvörðun ROE.
Orka ON getur kært ákvörðun ROE. — Morgunblaðið/Eggert
Orka náttúrunnar (ON) braut gegn 18. grein raforkulaga með því að selja raforku fyrir aðra notkun en á hleðslustöðvum í fjöleignarhúsi. ON var einnig brotlegt í sama tilviki gegn ákvæði reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar „með því að…

Orka náttúrunnar (ON) braut gegn 18. grein raforkulaga með því að selja raforku fyrir aðra notkun en á hleðslustöðvum í fjöleignarhúsi. ON var einnig brotlegt í sama tilviki gegn ákvæði reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar „með því að fara út fyrir heimildir þjónustuveitanda raforku þegar fyrirtækið skráir sig fyrir raforkumæli í sameign sem mælir aðra raforkunotkun en fyrir þau rafföng sem ON þjónustar, þ.e. raforkunotkun á hleðslustöðvum,“ segir í nýlegri ákvörðun raforkueftirlits Orkustofnunar (ROE).

Um er að ræða niðurstöðu ROE vegna kvörtunar Ísorku ehf. til eftirlitsins vegna fyrirkomulags hleðslubúnaðar í fjöleignarhúsum og hleðsluáskriftar ON. Í kvörtuninni var m.a. bent á að ON, sem bæði söluaðili raforku og hleðslubúnaðar, hefði skráð sig fyrir neysluveitu húsfélags, þ.e. veitumæli í sameign fjöleignarhúsa vegna uppsetningar hleðslubúnaðar.

Í niðurstöðu ROE kemur m.a. fram að leitt hafi verið í ljós að ON hafi viðhaft þá háttsemi að skrá sig fyrir sameignarmæli í fjöleignarhúsum sem mæli í senn raforkunotkun á hleðslustöðvum og aðra raforkunotkun í sameign, s.s. fyrir lyftu og ljós. ON hafi þar farið út fyrir heimildir þjónustuveitanda raforku og brotið gegn 18. grein raforkulaga „með því að selja raforku fyrir aðra notkun en á hleðslustöðvum“. Ekki verði annað séð en að þjónustan sé skilyrt við það að viðskiptavinir kaupi einnig raforku fyrir aðra notkun í sameign fjöleignarhússins af ON.

ON getur kært ákvörðun ROE til úrskurðarnefndar raforkumála.