Sandra Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 24. maí 1945. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 21. mars 2024.

Foreldrar Söndru voru Guðbjört Magnúsdóttir, f. 31. maí 1924 í Vestmannaeyjum, d. 27. júlí 2019 og Magnús Kr. Jónsson, f. 10. febrúar 1920 í Bolungarvík, d. 23. september 2005.

Hálfsystkin Söndru voru Símon Gísli Ólafsson, f. 25. maí 1965 í Reykjavík, Hrefna Helgadóttir, f. 23. desember 1948, d. 12. febrúar 2007, Guðjón Helgason, f. 13. desember 1957, Jenný Marín Helgadóttir, f. 3. mars 1959, Smári Helgason, f. 13. ágúst 1961 og Örn Helgason, f. 12. október 1969.

Eiginmaður Söndru var Hafsteinn Guðvarðarson, f. 19. júlí, 1942, d. 10. júlí, 2006. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Perla, f. 8. ágúst 1970. Sonur hennar er Bjarki Møller, f. 9. október 2003. 2) Harpa, f. 31. desember 1971. Börn hennar eru Rán Birgisdóttir, f. 9. febrúar 1998 og Óðinn Birgisson, f. 15. maí 2003. 3) Valur, f. 1. ágúst 1975. Eiginkona hans er Sólrún Haukdóttir, f. 20. desember 1973. Börn þeirra eru: Þórey Ósk Róbertsdóttir, f. 25. júní 1994. Eiginmaður hennar er Jón Sævin Hallgrímsson, f. 3. ágúst 1994. Börn þeirra eru Emilía Rós, f. 2014, Viktor Máni, f. 2015 og Baltasar Breki, f. 2019; Eyrún Lilja Aradóttir, f. 8. apríl 2001. Sambýlismaður hennar er Baldur Örn Jóhannesson, f. 2. apríl 2001; Jósavin Heiðmann Arason, f. 30. desember 2002.

Sandra ólst upp í Reykjavík en fluttist með fjölskyldu sinni austur á land í byrjun áttunda áratugarins. Þar bjó fjölskyldan lengst af á Eskifirði en einnig á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Þaðan lá leiðin á Sauðárkrók í fáein ár en árið 1987 fluttist Sandra til Akureyrar þar sem hún bjó upp frá því. Sanda vann á ýmsum stöðum í Reykjavík og á Akureyri en lengstum var hún heimavinnandi.

Útför Söndru fer fram frá Höfðakapellu í dag, 27. mars 2024, klukkan 13.

Elskuleg frænka er horfin á braut og hlýja og minningar um liðna daga fylla hugann.

Þó að Sandra hafi alltaf búið í öðrum landshluta en við voru tengingarnar alltaf sterkar og heimsóknirnar alltaf góðar. Fyrsta minningin er af Reykjavíkurferð með frænku til að skoða endur á tjörninni og eiga skemmtilegan dag og við systur vorum svo montnar í fallegu gulu kjólunum sem hún gaf okkur. Árin liðu og þá kom hún í heimsóknir með yndislegu börnin sín og þó að við værum unglingar var alltaf eitthvað gott og skemmtilegt sem fylgdi Söndru. Áfram liðu árin og við tók tímabil með frænkuhitting þar sem dætur, systur, tengdadætur og frænkur Jóns-bræðranna úr Bolungarvík komu saman og gerðu sér glaðan dag, þar var Sandra í essinu sínu ásamt Stínu systur og var ýmislegt brallað, skrafað og skoðað. Dásamlegur hittingur.

Sandra var mikill listamaður og skapaði svo fallegt handverk sem dáðst var að og það var alltaf hægt að leita til hennar um hugmyndir og ráð ef maður var ekki viss um hvað best væri að gera í hinu og þessu handverkinu. Þá var bara að svo auðvelt að heyra í henni, senda skilaboð og fá ráð um bestu lausnina. Nú sjáum við fyrir okkur að Sandra frænka sé komin í Sumarlandið og uni sér við spjall og spekúlarsjónir, glettni og grín, hún og systir að gera grín að okkur hér niðri, benda, skríkja, segja okkur til syndanna og senda okkur hlýja hugarstrauma.

Elsku Sandra frænka, takk fyrir allt.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Þínar frænkur,

Sólbjörg og Kristbjörg.