Listsköpun Íslenskir listamenn fagna áformum stjórnvalda um að fjölga starfslaunasjóðum og mánaðarlaunum sem úr þeim verða greidd.
Listsköpun Íslenskir listamenn fagna áformum stjórnvalda um að fjölga starfslaunasjóðum og mánaðarlaunum sem úr þeim verða greidd. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskir listamenn fagna almennt frumvarpsdrögum, sem Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda um að að stofnaðir verði þrír nýir launasjóðir listamanna sem starfslaun eru veitt úr

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Íslenskir listamenn fagna almennt frumvarpsdrögum, sem Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda um að að stofnaðir verði þrír nýir launasjóðir listamanna sem starfslaun eru veitt úr.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að einn þesara sjóða verði fyrir kvikmyndahöfunda og hinir tveir verði þverfaglegir sjóðir, annars vegar sjóður að nafni Vöxtur, sem ætlaður er ungum og upprennandi listamönnum, hins vegar sjóður að nafni Vegsemd, fyrir listamenn 67 ára og eldri, sem hafa varið starfsævi sinni í þágu listarinnar. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir því að þeim mánaðarlegu starfslaunum sem árlega koma til úthlutunar í kerfinu verði fjölgað úr 1.600 í 2.850, eða um samtals 1.250 mánaðarlaun. Af fjölguninni renni 500 mánuðir til hinna nýju sjóða en hinir 750 dreifast á milli þeirra sjóða sem fyrir voru.

Mikilvægar tillögur

Fjöldi umsagna hefur borist við frumvarpsdrögin. Flestar eru þær frá listamönnum og samtökum þeirra og almennt er þessum tillögum vel tekið. T.d. segir í umsögn frá Bandalagi íslenskra listamanna að tillögurnar séu mikilvægar til að auka veg listsköpunar í landinu og bæta hag þeirra sem leggja listina fyrir sig.

Í umsögn frá Listasafni Íslands segir að andstæðingar listamannalauna horfi gjarnan á að með því að styrkja listamenn sé fjármunum kastað á glæ og að listheimurinn ætti að vera markaðsdrifinn. „Ef sú væri raunin í okkar fámenna landi væri varla til nokkur myndlist sem skipti máli, mögulega gætu innan við 10 listamenn lifað af listinni og ekki er víst að sú list væri endilega áhugaverðasta listin sem skipti raunverulega máli þegar upp er staðið.“

Í umsögn Félags íslenskra söngkennara segir að starfslaun listamanna geri listamönnum kleift að helga sig list sinni og framleiða þannig verðmæti sem ekki verði metin einungis til fjár heldur stuðli einnig að velsæld, lýðheilsu og hamingju. Og í umsögn frá Listaháskólanum segir m.a. að það sé mikið fagnaðarefni að mánuðum til úthlutunar verði fjölgað þannig að betur verði hægt að tryggja fjölbreytileika og nýliðun í hópi listamanna.

Í öðrum umsögnum er bent á að ákveðnir hópar, svo sem þýðendur og myndhöfundar, séu afskiptir og geti ekki sótt um greiðslur úr launasjóði á sama grundvelli og aðrir listamenn. Þá er einnig í nokkrum umsögnum gagnrýnt hve lágar greiðslur úr launasjóðunum séu. Þannig segir í umsögn Rithöfundasambandsins að segja megi að úthlutun úr sjóðnum, eins kærkomin og hún sé flestum listamönnum, sé hálfgerð fátæktargildra. Afar erfitt sé fyrir flesta listamenn að ná endum saman á þessum kjörum og hækka þyrfti fjárhæðir listamannalauna ríflega.

Frekar að fækka sjóðum

En í umsögn Viðskiptaráðs kveður við annan tón. Þar er sett fram hörð gagnrýni á hugmyndir um fjölgun sjóða ríkisins, frekar eigi að fækka þeim. Þá segir að útgjöld til menningarmála hér á landi séu með því mesta sem þekkist í alþjóðlegum samanburði og því væri eðlilegra að horfa til forgangsröðunar innan málaflokksins. Einnig beri frumvarpið ekki með sér að stefnt sé að aðhaldi í ríkisfjármálum til að styðja við markmið um að ná niður verðbólgu og vöxtum. Segist Viðskiptaráð ekki styðja að frumvarpið verði lagt fram.

Menningarverðmæti

Hvað kostar þjóðsöngurinn?

„Staðan er nú sú að 4% landsmanna starfa í skapandi geiranum, 1% fleiri en í sjávarútveginum. Sá síðarnefndi skapar hærri útflutningstekjur en sá fyrrnefndi skapar hin menningarlegu verðmæti sem aldrei verða metin til fjár. Eða hvað kosta Íslendingasögurnar? Hvað kosta portrettin sem Kjarval gerði ungur af bændum á Borgarfirði eystra? Hvað kostar þjóðsöngurinn eða kraftaverkið mikla Heyr himna smiður? Allt eru þetta menningarafurðir sem fáir geta hugsað sér að vera án,“ segir Hallgrímur Helgason rithöfundur og listmálari m.a. í umsögn sinni. Að lokinni misheppnaðri útrás og köflóttu gengi í íþróttum hafi á liðnum árum myndast hér sá sannleikur að Ísland fer lengst á listinni.